Nemendum bannað að tæta skólabækur

Kínverskir nemar undirbúa sig fyrir inntökupróf.
Kínverskir nemar undirbúa sig fyrir inntökupróf. AFP

Yfirvöld í kínversku borginni Xiamen hafa lagt bann við tætingu kennslubóka og hrópum á göngum, til að létta á prófaálagi nemenda. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC.

Bannið er sett nú þegar 10 dagar eru í inntökupróf kínverskra háskóla, en nærri 10 milljónir kínverskra nema þreyta prófið árlega og lítur margt ungt fólk í Kína á það sem örlagavald í sínu lífi. Hafa prófin verið gagnrýnd fyrir að valda streitu meðal nemenda og eru dæmi um sjálfsvíg og alvarlegt þunglyndi vegna þeirra.

Samkvæmt skoðanakönnun kínverska vefmiðilsins Sina voru 51% notenda vefsins á móti banninu og bentu einhverjir lesendur á að námsbækurnar væru eign nemendanna svo að þeir ættu að mega gera það sem þeir vilja við þær. Aðrir bentu á að nemendurnir væru tæplega að tæta kennslubækurnar áður en prófið er haldið og líklegra sé að þeir hafi verið að tæta glósur og rissblöð.

Samkvæmt Global Times var sjö nemendum í Hubei-héraði vísað úr skóla á síðasta ári fyrir að rífa námsbækur og fleygja þeim út um glugga skólabyggingarinnar. Skólinn sagði þó að umræddir nemendur hefðu einungis fengið aðvörun og að þeim yrði heimilt að þreyta prófið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert