Hákarl réðist á brimbrettakappa

Talið er að maðurinn hafi misst hluta af fæti sínum …
Talið er að maðurinn hafi misst hluta af fæti sínum við árásina. AFP

Hákarl réðist á brimbrettakappa í Vestur-Ástralíu fyrr í dag. Talið er að maðurinn hafi misst hluta af fæti sínum við árásina. Maðurinn sem er 29 ára gamall var á brimbretti ásamt félögum sínum á Falcon Bay-ströndinni þegar hákarlinn réðist á hann aftan frá.

Nathan Hondros, fréttamaður hjá Mandurah Mail, var á staðnum þegar maðurinn var dreginn úr sjónum upp á ströndina og segir í viðtali við Radio 6PR að maðurinn hafi verið aðframkominn. „Svo virðist sem að hann hafi misst fótinn rétt fyrir ofan hnéskelina.“

Samkvæmt frétt Sky News var maðurinn fluttur á Royal Perth spítalann. Margaret Sturdy, framkvæmdastjóri spítalans, segir manninn illa haldinn og þakinn ljótum sárum en unnið er að því að bjarga honum. Hún vildi þó ekki tjá sig um það hvort maðurinn hafi misst fótinn eða hvort sár hans væru lífshættuleg.

Ian Barker, sem hjálpaði við að ná manninum upp úr sjónum, segist hafa heyrt einhvern öskra „hákarl“ og því hafi hann og nokkrir aðrir ákveðið að drífa sig upp úr sjónum. Þá hafi hann komið auga á manninn sem var afar fölur að sjá.

„Ég reri út til að hjálpa tveimur öðrum manneskjum sem voru enn í sjónum og sá þá manninn. Búið var að ná honum upp á brimbrettið og hann var að róa í land. Það voru um hundrað metrar í land þannig að við byrjuðum á því að koma honum á ströndina og hófum svo endurlífgun.“

Ekki er vitað hverrar tegundar hákarlinn var sem réðist á manninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert