Haukur í horni eða fjötur um fót?

Bill og Hillary Clinton á kosningafundi í Philadelphia.
Bill og Hillary Clinton á kosningafundi í Philadelphia. AFP

Atvinnu- og efnahagsmál er sá vettvangur þar sem Hillary Clinton sér fyrir sér að eiginmaður hennar muni láta til sín taka ef hún hreppir Hvíta húsið í forsetakosningunum vestanhafs. Fjölmiðlar velta því nú fyrir sér hvort Bill muni reynast Hillary haukur í horni eða fjötur um fót, en forsetinn fyrrverandi þykir svipur hjá sjón og með litríka fortíð.

Hillary Clinton sagði nýlega að herra Clinton myndi hafa umsjón með því að skara í glæður efnahagslífsins, „því það kynni hann.“ Aðspurð að því hvort hann myndi eiga sæti í ríkisstjórn hennar svaraði frambjóðandinn neitandi.

Fram til þessa hefur fremur lítið borið á Bill í kosningabaráttunni, en spekúlantar segja það með vilja gert; teymið í kringum Hillary hafi freistað þess að stytta í ólinni að þessu sinni, en þegar hún atti kappi við Barack Obama 2008 var forsetinn fyrrverandi mun yfirlýsingaglaðari þegar hann talaði máli eiginkonu sinnar en hann er nú.

Þrátt fyrir djarfa sókn Bernie Sanders, harðar árásir Donald Trump og sjálfsköpuð tölvupóstvandræði Clinton, er enn líklegra en ekki að hún hreppi útnefningu demókrata sem forsetaefni flokksins. Kosningateymi hennar er sagt leggja drög að slagnum við Trump, þar sem eiginmaður hennar Bill er sagður geta hjálpað, en hann virðist ná betur til hins almenna verkamanns.

Samkvæmt könnun frá því í febrúar sl. sögðust 55% kjósenda ekki trúa því að Hillary væri annt um „fólk eins og mig.“

Beinagrindurnar í fataskápnum

Hillary sætir nú rannsókn í tengslum við tölvupósthneykslið svokallaða, en hún hefur m.a. verið sökuð um að koma upp ólöglegum netþjón þegar hún var utanríkisráðherra og um að hafa ekki varðveitt og afhent öll opinber gögn sem urðu til við tölvupóstsamskiptin.

Það er þó ekki eini skandallinn sem virðist ætla að draga hana niður því andstæðingur hennar virðist staðráðinn í því að særa fram þá illu anda sem sveimuðu um Hvíta húsið í forsetatíð Bill Clinton, þá ekki síst þá er tengjast kvennamálum síðastnefnda og meintum kynferðisbrotum.

Is Hillary really protecting women?

A video posted by Donald J. Trump (@realdonaldtrump) on May 23, 2016 at 8:27am PDT

Því miður fyrir Hillary er af nógu að taka; Lewinsky-hneykslið, Paula Jones, og mál Juanitu Broaddrick, sem sakaði Bill um nauðgun, og Kathleen Willey, sem sakaði hann um kynferðisofbeldi. Þá eru ótalin þau mál þar sem hjónin voru gerendur; Whitewater, himinháar tekjur beggja vegna ræðuhalda, og spurningar tengdar Clinton-sjóðnum, m.a. varðandi mögulega hagsmunaárekstra vegna starfa Hillary sem utanríkisráðherra.

Svona mætti áfram telja.

Adam?

Þeir sem þekkja til segja að það gæti komið sér afar vel fyrir Hillary að hafa fyrrverandi forseta í Hvíta húsinu; þriðja aðila sem hægt er að senda út af örkinni þegar forsetinn og varaforsetinn eru vant við látnir.

En þeir sem hafa fylgst með Bill Clinton í kosningabaráttunni 2016 segja hann svip hjá sjón. Hann virki þreytulegur, andlaus. Í stað eins mesta sjarmatrölls samtímans mæti kjósendum nú gamall maður; blikið í augunum sé farið.

Bill þykir hafa látið á sjá, en hann lagði mikið …
Bill þykir hafa látið á sjá, en hann lagði mikið af eftir tvær stórar aðgerðir um árið. AFP

Og þó virðist hann eiga sína spretti, ekki síst þegar veist er að eiginkonunni sem stóð við hlið hans gegnum súrt og sætt þegar hann var forseti. Nú gera menn úr því skóna að það sé ekki bara trúin á ágæti Hillary sem knýr hann áfram, heldur tækifærið til að öðlast nokkurs konar endurlausn með öðru tímabili í Hvíta húsinu.

Bill hefur gantast með það að formlegur titill hans ætti að verða Adam; fyrsti maðurinn. Lendingin verður hins vegar líklega „First Gentleman“, það er að segja ef eiginkonu hans tekst að veðra af sér kosningastorminn fram undan.

Fréttir:

New York Times

BBC

The Guardian

GQ

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert