Kenndu sjö ára dreng um morð barnsins

Liam Fee var aðeins tveggja ára er hann lést.
Liam Fee var aðeins tveggja ára er hann lést.

Bresk móðir hefur verið dæmd fyrir að myrða tveggja ára son sinn með hroðalegum hætti. Kærasta hennar var einnig dæmd fyrir morðið. Þær reyndu svo að kenna sjö ára dreng um voðaverkið.

Konurnar eru sagðar hafa beitt Liam Fee, tveggja ára, grófu ofbeldi í langan tíma. Á líki hans fundust yfir 30 sár og önnur meiðsli. Banamein hans var mikið högg í kviðinn sem reif í sundur æðar til hjartans. Við flutning málsins kom m.a. fram að áverkarnir væru eins og eftir alvarlegt bílslys.

Í frétt Sky kemur fram að til að fela verknaðinn hafi þær sannfært sjö ára gamlan dreng sem var í þeirra umsjá um að hann hefði valdið dauða Liam litla. 

Þær sögðu drengnum að hann hefði kyrkt Liam og létu hendur hans inn í munninn á líki Liams litla til að lífssýni myndu finnast. 

Lögreglan komst hins vegar að hinu sanna, m.a. í kjölfar skýrslutöku á drengnum. 

Við meðferð málsins fyrir dómi kom fram að konurnar höfðu brákað handlegg Liams litla og fótbrotið hann. Þær fóru ekki með hann til læknis heldur gáfu honum verkjalyf.

Meðal þess sem kom fram við flutning málsins var að samkvæmt greiningu sem lögreglan gerði á tölvum kvennanna höfðu þær meðal annars slegið eftirfarandi spurningu inn í Google-leit: „Getur þú dáið vegna mjaðmarbrots?“

Konurnar voru einnig fundnar sekar um illa meðferð á tveimur sjö ára drengjum sem voru í þeirra umsjá. Þær læstu m.a. annan þeirra inni í búri og fjötruðu hinn fastan við stól. 

Þær beittu drengina einnig margvíslegu öðru ofbeldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert