Neyðarfundur vegna Venesúela

Luis Almagro, framkvæmdastjóri OAS, Samtaka Ameríkuríkja.
Luis Almagro, framkvæmdastjóri OAS, Samtaka Ameríkuríkja. AFP

Samtök Ameríkuríkja, OAS, boðuðu í dag til neyðarfundar vegna ástandsins í Venesúela. Stjórnmálaskýrendur telja að tíðindin gætu leitt til þess að Venesúela yrði vísað úr samtökunum.

Stjórnarandstæðingar í landinu hafa að undanförnu hvatt samtökin til þess að boða til neyðarfundar.

Yfirmaður samtakanna, Luis Almagro, sagðist í yfirlýsingu telja að stjórnarkreppan í Venesúela krefðist tafarlausra breytinga á framkvæmdarvaldi landsins.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, brást illa við tíðindunum og sakaði samtökin um að skipta sér að óþörfu af innanlandsmálum.

Hann sagðist jafnframt ætla að gefa út ákærur á hendur þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hefðu óskað eftir því að samtökin boðuðu til fundar. Þeir þingmenn hefðu svikið landið.

Stjórnarandstaðan á þingi vill losna við Maduro úr embætti og saka hann um einræðistilburði. Þingmenn stjórnarandstöðunnar eru í meirihluta á þinginu. Um tvær milljónir landsmanna hafa skrifað undir áskorun um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um framtíð Maduros á valdastóli. Ríkisstjórn hans hefur ekki orðið við því, þrátt fyrir skýr ákvæði stjórnarskrárinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert