Segir forskot Hillary óyfirstíganlegt

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu.
Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu. AFP

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, lýsti í dag yfir stuðningi við Hillary Clinton í baráttu hennar gegn Bernie Sanders um tilnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningum Bandaríkjanna síðar á árinu.

Hann sagði við fjölmiðla í dag að „eina leiðin áfram og til þess að stöðva hættulegt framboð Donalds Trump“ væri að kjósa Hillary.

Hann sagði að forskot Hillary væri nú orðið óyfirstíganlegt. Bernie Sanders ætti engan möguleika á sigri.

Stuðningsyfirlýsing ríkisstjórans er vonbrigði fyrir framboð Sanders en forval Demókrataflokksins í Kaliforníu fer fram 7. júní næstkomandi.

„Hillary Clinton, með sína miklu reynslu, sér í lagi sem utanríkisráðherra, hefur sterkan skilning á málunum og verður reiðubúin til þess að leiða landið frá fyrsta degi,“ sagði Brown.

Hann sagðist þó hafa heillast af framgöngu Sanders og skilaboðum hans um að leggja til atlögu við ójöfnuðinn í samfélaginu. Hillary vissi hins vegar hvernig hægt væri að koma stefnu flokksins í framkvæmd.

Brown sóttist eftir útnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum 1992 og fór þá gegn eiginmanni Hillary, Bill Clinton. Hann gafst ekki upp fyrr en á flokksfundi flokksins.

Hann lýsti þá aldrei formlega yfir stuðningi við Clinton.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert