Skildu soninn eftir í refsingarskyni

mbl.is/Jón Svavarsson

Lögregluyfirvöld á Japan leita enn sjö ára drengs sem skilinn var eftir í skóglendi í refsingarskyni. Drengurinn hefur verið týndur í fjóra daga en foreldrar hans verða mögulega ákærðir fyrir vanrækslu.

Um 180 lögreglumenn og slökkviliðsmenn leita Yamato Tanooka.

Þegar tilkynnt var um  hvarf hans á laugardag sögðu foreldrar hans í fyrstu að hann hefði týnst á meðan fjölskyldan tíndi ætisveppi í skóginum. Seinna viðurkenndu þau hins vegar að þau  hefðu skilið hann eftir í refsingarskyni, þar sem hann hefði kastað grjóti að fólki og bílum fyrr um daginn.

Á leið heim úr skóginum skipuðu foreldrar Tanooka honum út úr bílnum og óku áfram 500 metra. Þegar faðir drengsins fór að athuga með hann fimm mínútum seinna var hann horfinn.

Tanooka var klæddur í stuttermabol og gallabuxur og hafði hvorki vatn né mat í fórum sínum.

„Ég finn til með syni mínum. Mér þykir fyrir því að hafa valdið svona mörgu fólki fyrirhöfn,“ sagði faðir drengsins við fjölmiðla.

Hegðun foreldra Tanooka hefur vakið mikla reiði á samskiptamiðlum.

Á sunnudag rigndi mikið á því svæði þar sem drengurinn týndist og í dag höfðu sjónvarpsstöðvar eftir leitarmönnum að „ferskur“ bjarnarsaur hefði fundist á svæðinu. Talsmaður Nanae, nálægs bæjar, sagði heimamenn sjaldan fara þar um.

„Það fer ekki margt fólk né margir bílar fram hjá og það gerir niðamyrkur þar sem þar eru engin ljós. Það kemur ekki á óvart að rekast á björn á svæðinu.“

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert