Tveir handteknir vegna hryðjuverka

Aðdáendur belgíska landsliðsins fagna.
Aðdáendur belgíska landsliðsins fagna. AFP

Belgísk yfirvöld hafa kært tvo menn fyrir hryðjuverk í kjölfar húsleitar í nótt. Frá þessu greindi ríkissaksóknari landsins í dag en fréttir hafa borist af því að handtökurnar tengist fyrirhugaðri árás á stuðningsmannasvæði EM 2016.

„Tveir einstaklingar ... voru færðir til yfirheyrslu og handteknir,“ segir í yfirlýsingu saksóknara. „Þeir eru ákærðir sem ódæðismaður og samverkamaður fyrir þátttöku í starfi hryðjuverkahóps.“

Gerð var leit í fjölmörgum húsum yfir nóttina í Verviers í austurhluta landsins og í Tournai, nálægt landamærunum við Frakkland. Engin vopn né sprengiefni fundust og ekki verða gefnar frekari upplýsingar meðan á rannsókn stendur, að því er fram kom í yfirlýsingunni.

Áður hafði talsmaður saksóknara sagt að einn maður hefði verið handtekinn í hvorum bænum fyrir sig.

Viðbúnaðarstig er enn hátt í Belgíu eftir hryðjuverkaárásir í mars á vegum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Árásirnar voru gerðar á flugvöll og lestarstöð í Brussel og 32 létu lífið. Sumir árásarmannanna hafa verið tengdir beint við árásirnar í París í nóvember, sem voru skipulagðar í Brussel, þar sem 130 létu lífið.

Í grein sinni um málið vitnar AFP í fréttaþjónustu RTL sem hefur heimildir fyrir því að maðurinn sem handtekinn var í Verviers hafi verið að skipuleggja árás á stuðningsmenn Belgíu sem koma saman á sunnudag til að horfa á leik landsliðsins við Ungverjaland.

Fyrir viku kærði Belgía þrjá menn fyrir tilraun til hryðjuverka og morða í kjölfar stórfelldra húsleita vegna ógna við stuðningsmenn á Evrópumóti karla í knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert