Eftirlýstur mafíuforingi handsamaður

Mynd sem lögreglan á Ítalíu birti af mafíuforingjanum Ernesto Fazzalari.
Mynd sem lögreglan á Ítalíu birti af mafíuforingjanum Ernesto Fazzalari. AFP

Einn eftirlýstasti mafíuforingi Ítalíu var handtekinn í morgun. Hann hafði verið á flótta undan réttvísinni í tvo áratugi eftir að hafa verið dæmdur fyrir m.a. tvöfalt manndráp.

AFP greinir frá en þar segir að hinn 46 ára Ernesto Fazzalari hafi verið handsamaður í íbúð í Calabria-héraði á Ítalíu þar sem ‘Ndrangheta-mafían ræður ríkjum.

‘Ndrangheta er sögð vera öflugasta mafían á Ítalíu, umsvifameiri en sikileyska Cosa Nostra-mafían og Camorra-mafían í Napólí. Auður ‘Ndrangheta byggir að verulegu leyti á smygli og sölu á kókaíni frá Suður-Ameríku sem smyglað er til Evrópu í gegnum Afríku og Suður-Ítalíu.

Starfsemi mafíunnar veltir milljörðum dala árlega og hafa rannsóknir lögreglu leitt í ljós að mafían teygir anga sína til glæpasamtaka í Kólumbíu, Mexíkó og er mafían í góðu sambandi við mafíur í New York og á öðrum stöðum í Norður-Ameríku.

Þá leiddu handtökur lögreglu seinni hluta árs 2014 og fyrri hluta 2015 í ljós að ‘Ndrangheta-mafían hafði breitt úr sér, út fyrir Calabria-hérað, með því að fjárfesta í löglegum fyrirtækjum með það fyrir augum að þvo kókaínhagnað samtakanna.

Fazzalari hefur verið á flótta síðan 1996 en hann var dæmdur árið 1999 fyrir aðild að samtökunum, mannrán, ólögmæta eign á skotvopnum og tvöfalt manndráp sem rekja má til blóðugra ættardeilna í heimabæ hans, Taurianova. 32 létust í blóðugu átökunum á tímabilinu.

Hann var númer tvö á lista yfir eftirlýstustu mafíuforingja Ítalíu á eftir Matteo Messina Denaro, mafíuforingja Cosa Nostra-mafíunnar á Sikiley.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert