Skotland gæti hafnað Brexit

Nicola Sturgeon.
Nicola Sturgeon. AFP

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir að skoska þingið gæti reynt að koma í veg fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Frá þessu greinir BBC en á fimmtudag kusu 52% Breta með, og 48% gegn, því að Bretland myndi segja sig úr sambandinu.

Heildartölurnar ríma hins vegar illa við tölurnar frá Skotlandi þar sem 62% vildu vera áfram í sambandinu en 38% kusu með útgöngu.

Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins sem á 63 sæti af 129 á skoska þinginu, sagði að „auðvitað“ myndi hún biðja skoska þingmenn um að neita að gefa „löggjafar-leyfi sitt“ fyrir útgöngunni. Hún hafði verið innt eftir því í þætti BBC, Sunday Politics Scotland, hvað skoska þingið myndi gera nú.

„Það sem þú ert að tala um er hvort það þyrfti að setja fram tillögu um lagalegt samþykki eða tillögur gagnvart löggjöfinni sem dregur Bretland úr Evrópusambandinu?“ sagði Sturgeon. Hún vísaði þar í það sem á ensku er kallað „Legislative Consent Motion“ og er m.a. verkfæri skoska þingsins til að innleiða breytingar á vegum breska þingsins sem annars hefðu ekki náð til Skotlands. 

Frá Edinborg í Skotlandi.
Frá Edinborg í Skotlandi. AFP

 „Frá rökréttu sjónarhorni finnst mér erfitt að trúa því að sú krafa væri ekki sett fram – mig grunar að ríkisstjórn Bretlands muni hafa mjög ólíka sýn á það og við þurfum að sjá hvar og hvert umræðan fer.“

Þegar Sturgeon var spurð að því hvort hún myndi íhuga að biðja þingið um að styðja ekki við lagalegt samþykki svaraði hún „auðvitað“.

„Ef skoska þingið væri að meta þetta á grundvelli þess sem er rétt fyrir Skotland þá er möguleikinn á því að segja: „Við ættum ekki að kjósa eitthvað sem gengur gegn hagsmunum Skotlands,“ auðvitað á borðinu.“

Fyrr í dag sagði hún að formlegar viðræður um aðild Skotlands að Evrópusambandinu við fulltrúa ESB myndu hefjast í næstu viku. Degi eftir að niðurstaðan var ljós tilkynnti hún að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands væri nú á borðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert