Þýskir stjórnmálamenn handteknir í Tyrklandi

Óeirðalögregla á gleðigöngunni í Istanbúl.
Óeirðalögregla á gleðigöngunni í Istanbúl. AFP

Tyrknesk lögregla handtók tvo þýska stjórnmálamenn í Istanbúl á gleðigöngunni þar í borg, en tyrknesk yfirvöld höfðu lagt bann við göngunni. Bannið kom til af öryggisástæðum, vegna sprengjuárása í Tyrklandi undanfarið, að sögn yfirvalda.

Stjórnmálamennirnir, Volker Beck og Terry Reintke, koma báðir úr röðum græningja og greindu frá handtökunum á Twitter-reikningum sínum. Reintke, sem á sæti á Evrópuþinginu, segir 15 manns hafa verið handtekna og að óeirðalögreglan hafi verið mjög aðgangshörð.

Tvö til þrjú hundruð manns mættu í gönguna þrátt fyrir bannið, en hópurinn var fljótlega leystur upp af lögreglu, sem skaut gúmmíkúlum og notaði táragas, auk þess að taka regnbogafánann af þátttakendum göngunnar.

Stöðvun göngunnar í dag kemur viku eftir að hundruð óeirðalögreglumanna stöðvuðu gleðigöngu transfólks í Istanbúl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert