Vill hunsa þjóðaratkvæðið

AFP

„Vaknið. Við þurfum ekki að gera þetta. Við getum stöðvað þetta brjálæði og bundið enda á þessa martröð með atkvæðagreiðslu í þinginu,“ segir David Lammy, þingmaður breska Verkamannaflokksins, á Twitter-síðu sinni í tilefni af þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi á fimmtudaginn þar sem samþykkt var að segja skilið við Evrópusambandið.

Lammy segir að breska þingið ætti að taka ákvörðun um það hvort Bretland yfirgefi Evrópusambandið. Þjóðaratkvæðið hafi einungis verið ráðgefandi og því væru stjórnvöld óbundin af niðurstöðum þess. Segir hann að málflutningur þeirra sem hafi viljað úr sambandinu væri þegar að liðast í sundur og sumir óskuðu þess að hafa ekki kosið með því.

„Þingið verður núna að ákveða hvort við eigum að láta verða af því að yfirgefa Evrópusambandið og það ætti að fara fram atkvæðagreiðsla um það í næstu viku. Eyðileggjum ekki efnahag okkar á grundvelli lyga og sjálfsánægju Boris Johnson,“ segir Lammy enn fremur en Johnson er einn af helstu forystumönnum þeirra sem börðust fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert