Corbyn að missa tökin á flokknum

Jeremy Corbyn stendur frammi fyrir uppreisn hluta flokksmanna sinna í …
Jeremy Corbyn stendur frammi fyrir uppreisn hluta flokksmanna sinna í kjölfar Brexit. AFP

Breski Verkamannaflokkurinn logar stafnanna á milli í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um úrgönguna úr Evrópusambandinu. Fjöldi liðsmanna hans hefur sagt sig frá forystunni og krefst afsagnar leiðtogans Jeremy Corbyn. Varaformaður flokksins segir Corbyn engin völd hafa yfir þingmönnum hans.

Framganga Corbyn í kosningabaráttunni hefur sætt harðri gagnrýni og er hann ekki talinn hafa talað af nægilega mikilli sannfæringu fyrir því að Bretar yrðu um kyrrt í ESB. Hann hafi jafnvel grafið undan málflutningi flokksins til stuðnings aðild. Tíu ráðherrar skuggaráðuneytis Corbyn sögðu af sér eftir að svonefnt Brexit varð ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Corbyn tilnefndi eftirmenn þeirra í morgun en á sama tíma hefur afsagnarbréfum flokksmanna hans rignt inn úr embættum háum sem lágum. Vilja þeir að Corbyn stígi til hliðar þar sem hann hafi sýnt að hann valdi ekki embætti formanns. Tom Watson, varaformaður Verkamannaflokksins, fundaði með Corbyn í dag og sagði honum að hann nyti ekki trausts þingflokksins.

Frétt mbl.is: Skuggaráðherrar segja af sér

Breska ríkisútvarpið segir að Watson hafi ekki sagt Corbyn að hætta en hann hafi hins vegar varað leiðtogann við því að hann myndi sæta keppni um forystu flokksins. Hann þyrfti að ákveða hvort hann tæki slaginn eða stigi til hliðar.

Corbyn hefur fram að þessu ekki látið neinn bilbug á sér finna en í ljósi fjöldaafsagnanna gæti hann nú staðið frammi fyrir nýjum formannskosningum í flokknum. Hann sigraði í slíku kjöri í september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert