Ísraelar og Tyrkir lappa upp á sambandið

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í Róm þar sem tilkynnt var …
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í Róm þar sem tilkynnt var um samkomulagið við Tyrki. AFP

Ríkisstjórnir Ísraels og Tyrklands hafa samþykkt að taka upp stjórnmálasamband að fullu að nýju. Samskipti ríkjanna tveggja hafa verið stirð undanfarin sex ár eftir árás ísraelskra sérsveitarmanna á skipalest sem reyndi að brjóta herkví um Gasaströndina. Tíu Tyrkir voru drepnir. 

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, lofaði samkomulagið sem náðist í gær og verður kynnt formlega í dag. Það muni hafa meiri háttar jákvæð áhrif á efnahag landsins. Samkomulagið sé mikilvægt skref til að koma á eðlilegum samskiptum á milli ríkjanna.

Níu tyrkneskir aðgerðarsinnar voru drepnir um borð í skipinu Marvi Marmara árið 2010. Skipið var hluti af skipalest sem reyndi að brjóta herkvína sem Ísraelsher stóð fyrir um landsvæði Palestínumanna. Sá tíundi lést af sárum sínum síðar. Fram að árásinni höfðu Tyrkir verið einir nánustu bandamenn Ísraela í múslimaheiminum.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að ísraelsk stjórnvöld leggi tuttugu milljónir dollara til bótasjóðs fyrir fjölskyldur þeirra sem voru drepnir. Á móti ætla tyrknesk yfirvöld að fella niður ákærur sem gefnar voru út á hendur ísraelsku hermönnunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert