Bretar sleppa ekki auðveldlega

Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu.
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu. AFP

Næstu leiðtogar Bretlands eiga ekki að búast við því að landið geti áfram notið aðgangs að innri markaði Evrópusambandsins ef það yfirgefur sambandið og hættir að lúta þeim skyldum sem fylgja aðild. Þetta segir Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu.

„Ef nýir leiðtogar Bretlands telja sig geta notið aðeins kosta Evrópusambandsins án þess að sýna samstöðu, þá verður það ekki mögulegt,“ sagði forsætisráðherrann í samtali við Reuters.

„Við verðum að vera raunhæf. Það gildir fyrir Evrópusambandið, en líka leiðtoga Bretlands,“ bætti hann við.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fundaði með Michel og öðrum Evrópuleiðtogum í Brussel í dag.

Cameron hyggst stíga til hliðar í síðasta lagi í október og hefur falið eftirmanni sínum, hver sem það verður, að hefja úrsagnarferlið með formlegum hætti. Eftirmaðurinn mun jafnframt leiða samningaviðræðurnar við Evrópusambandið um skilmála úrsagnarinnar fyrir hönd Breta.

Boris Johnson, sem stjórnmálaskýrendur telja líklegt að taki við embættinu, hefur sagt að Bretar muni áfram geta átt í viðskiptum við hin 27 aðildarríki Evrópusambandsins, þótt þeir yfirgefi sambandið og lúti ekki lengur reglum þess.

„Þú getur ekki sent þau skilaboð að hægt sé að yfirgefa Evrópusambandið, án vandkvæða, en á sama tíma notið áfram allra kostanna sem fylgja aðildinni,“ sagði Michel.

„Þú getur ekki sagt: Ég ætla að skilja við þig, en ég mun áfram lifa með þér nokkra daga á ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert