„Blóð og slasaðir farþegar alls staðar“

Vitni að árásunum á Ataturk-flugvelli í Tyrklandi lýsa þeim sem blóðugri ringulreið. Árásarmennirnir beittu skotvopnum og þremur sjálfsmorðssprengjum. 41 lést í árásinni og í það minnsta 13 þeirra eru erlendir ferðamenn. Að auki eru um 230 særðir en 109 hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.

Alireza frá Íran sagði Buzzfeed frá upplifun sinni. Hann var staddur í tollfrjálsri verslun á flugvellinum þegar „við heyrðum fyrst eina sprengingu og svo aðra“.

„Það var skelfing og ringulreið alls staðar. Við þurftum að æða út í flugstöðvarbygginguna,“ sagði Alireza. „Það var blóð og slasaðir farþegar alls staðar.“

Á sama miðli lýsir Trice frá Kongó hvernig skelfingin greip um sig. „Við vissum ekki í hvaða átt við ættum að fara af því að við vorum hrædd við að það yrðu fleiri sprengingar.“

Á Reuters lýsir Paul Roos því hvernig hann sá einn byssumanninn „skjóta handahófskennt“ í flugstöðvarbyggingunni.

„Hann skaut bara á hvern þann sem fyrir varð,“ sagði Roos. „Hann klæddist öllu svörtu. Hann var ekki með grímu fyrir andlitinu.“

Jim Hyong Lee frá Suður-Kóreu sagði Telegraph frá því að hann hefði verið við innritunarborðið þegar byssuskot heyrðust. „Ég greip fjölskylduna mína og hljóp,“ sagði Lee. „Einhver benti okkur inn í bænaherbergið og faldi okkur þar þar til lögreglan kom.“

Farþegar hughreysta hvor annan utan við flugvöllinn.
Farþegar hughreysta hvor annan utan við flugvöllinn. AFP

Eins og atriði úr kvikmynd

Annar ferðamaður á flugvellinum, Laurence Cameron, sagði CNN að hann hefði verið nýkominn úr flugi og stigið inn í það sem minnti á hamfarakvikmynd.

„Það var bara gríðarlegur skari öskrandi fólks. Sumir féllu um sjálfa sig. Náungi í hjólastól var bara skilinn eftir og allir flýttu sér að bakenda byggingarinnar og síðan hljóp fólk í hina áttina og enginn vissi í raun hvað var í gangi.“

Sue Savage ræddi einnig við CNN en hún var á flugvellinum til að kveðja vin. Hún heyrði byssuskot, sprengingu og svo fleiri byssuskot og aðra sprengingu. Hún faldi sig fyrst í bænaherbergi ætluðu karlmönnum og svo á karlaklósetti þar sem hún faldi sig á bás með ungri konu.

Þær komu út 30 mínútum síðar og heyrðu meiri öskur og byssuskot. Þá földu þær sig í herbergi þar sem farangur er rannsakaður en því næst var henni sópað ásamt 30 öðrum inn í bænaherbergi kvenna þar til lögreglan kom og sótti hópinn. Lögreglan leiddi hópinn niður rúllustiga og í gegnum aðalbyggingu flugvallarins þar sem hún sá blóðug fótspor á gólfinu.

„Það var mikið af blóði,“ sagði hún. „Það var svo mikið af gleri á gólfinu að þeir þurftu að sópa því til hliðar svo við rynnum ekki.“

Rannsóknarlögregla að störfum utan við flugvöllinn þar sem ein sprengjan …
Rannsóknarlögregla að störfum utan við flugvöllinn þar sem ein sprengjan sprakk. AFP

Með skotsár í kjallaranum

Judy Facish lýsir svipaðri upplifun í aðalbyggingunni í samtali við CBS.

„Glundroði og blóð og fólk hlaupandi um, uggandi og áhyggjufullt. Það var bara hræðilegt.“

Hún sagði lögreglu hafa safnað henni og öðrum ferðamönnum saman í mötuneyti í kjallara þar sem þau dvöldu í yfir tvo tíma eftir sprengingarnar. Sumt fólkið hafi verið skotið og það hafi blætt úr því.

„Það voru nokkrir einstaklingar sem fengu mjög slæm kvíðaköst og engdust bókstaflega um af kvíða,“ sagði hún. „Og svo var önnur kona, ég held að hún hljóti að hafa fengið hjartaáfall, aftur af kvíða.“ 

Buzzfeed birtir mynd sem virðist sýna lík eða mikið slasaða einstaklinga utan við flugvöllinn í gærkvöldi. Myndin er tekin af tyrkneskum notanda Twitter sem upplýsti að allt í kring lægju sundurlimaðir útlimir fólks en hann myndi ekki birta myndir af þeim.

Lögreglumaður leiðbeinir farþegum utan við Ataturk flugvöllinn.
Lögreglumaður leiðbeinir farþegum utan við Ataturk flugvöllinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert