Koma sér saman um formannsframbjóðanda

Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins. AFP

Búist er við því að þingmenn breska Verkamannaflokksins komi sér í dag saman um frambjóðanda til þess að bjóða sig fram gegn Jeremy Corbyn, sitjandi formanni flokksins.

Um þrír fjórðu þingmanna flokksins samþykktu í atkvæðagreiðslu í gær að lýsa yfir vantrausti á Corbyn.

Líklegir formannsframbjóðendur eru Tom Watson, varaformaður flokksins, og Angela Eagle, fyrrum skuggaviðskiptaráðherra flokksins.

Corbyn hefur sagst ekki ætla að „svíkja“ stuðningsmenn sína með því að segja af sér.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hvatti Corbyn til þess að segja af sér í umræðum á breska þinginu í dag. Það væri kannski í hag síns eigin flokks, Íhaldsflokksins, að Corbyn sæti sem fastast, en það væri augljóslega ekki í hag þjóðarinnar.

„Í guðs bænum, farðu!“ hrópaði Cameron.

172 þingmenn Verkamannaflokksins greiddu atkvæði með vantrausti á Corbyn í atkvæðagreiðslunni í gær, en fjörutíu voru andvígir.

Ed Miliband, forveri Corbyns, og Harriet Herman, fyrrum varaformaður flokksins, hafa hvatt Corbyn til þess að stíga til hliðar. Þá sagði Pat Glass af sér sem skuggamenntamálaráðherra flokksins fyrr í dag, aðeins tveimur sólarhringum eftir að hann tók við embættinu.

AFP

Flestir skuggaráðherrarnir hafa stigið til hliðar á undanförnum dögum og sagt að Corbyn njóti ekki lengur trausts þeirra.

Glass sagði að starfið væri hennar „draumastarf“, en að ástandið væri óverjandi.

Seema Malhotra, einn af fyrrverandi skuggaráðherrum flokksins, sagði í samtali við Newsnight að nýr formannsframbjóðandi yrði líklegast kynntur til sögunnar í dag.

John McDonnell, þingmaður Verkamannaflokksins og einn helsti bandamaður Corbyns, hvatti hins vegar aðra þingmenn flokksins til þess að fylgja reglum flokksins og boða til formlegrar formannskosningar, vildu þeir skora Corbyn á hólm.

Hann sagði að Corbyn liði ágætlega en bætti við: Okkur þykir leitt að þurfa að fara í gegnum þetta, vegna þess að það er algjörlega ónauðsynlegt.“

Corbyn sagði í gær að atkvæðagreiðslan um vantraustið væri ekki bindandi. Hann væri enn lýðræðislega kjörinn formaður flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert