Bretar nærri tvöfalda herlið sitt í Írak

Frá Mosul. Bretar munu hjálpa íraska hernum við undirbúning eindurheimtingar …
Frá Mosul. Bretar munu hjálpa íraska hernum við undirbúning eindurheimtingar borgarinnar. AFP

Bretar ætla að senda 250 manna herlið til Íraks, sem mun bætast við um 300 breska hermenn sem eru í landinu nú þegar. Heildarfjöldi breskra hermanna í Írak mun því nærri tvöfaldast. BBC greinir frá þessu.

Stærstur hluti herliðsins mun fara á Al Asad-flugherstöðina í Anbar-héraði í vesturhluta landsins, um 160 kílómetra frá höfuðborginni Bagdad. Bretarnir munu ekki taka þátt í bardögum, heldur fara þeir til að aðstoða við þjálfun hermanna og vernda herstöðina.

Í yfirlýsingu segir Michael Fallon, varnarmálaráðherra Bretlands, að hermennirnir muni bætast við hið mikilvæga framlag sem Bretar hafa lagt til í baráttunni gegn Ríki íslams. „Flugvélar okkar hafa nú stýrt um 900 árásum á Ríki íslams í Írak og Sýrlandi,“ sagði Fallon. „Á landi hefur herlið okkar hjálpað til við þjálfun meira en 18.000 manns írösku öryggissveitanna.

Nú þegar íraski herinn heldur áfram að endurheimta svæði og hefur undirbúningsvinnu til að vinna aftur Mosul er mikilvægt að samstarfið haldi áfram.“

Um 120.000 hermenn Breta hafa starfað í Írak frá innrásinni í landið 2003, en breski herinn hætti þátttöku í bardögum í landinu 2009. 179 breskir hermenn hafa látist í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert