Transfólk fær að ganga í Bandaríkjaher

Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að aflétta banni við transfólki í Bandaríkjaher. Verður því nú heimilt að starfa í hernum.

Gert er ráð fyrir að herstöðvar fái eitt ár til að tileinka sér nýju reglurnar.

Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að nú séu þegar um 2.500 transkonur og menn við störf í hernum, en transfólki hefur þó ekki verið heimilt að ganga í herinn.

„Þetta er rétt ákvörðun fyrir fólkið okkar og herinn,“ sagði Carter. Ekki væri hægt að láta gamaldags tálmanir, sem tengjast ekki hæfileikum fólks, koma í veg fyrir að hæfileikaríkt fólk gæti gegnt herþjónustu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Hermenn ættu ekki heldur að þurfa að fara leynt með kyngervi sitt.

Aðeins sex ár eru síðan Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, felldi úr gildi bann við því að samkynhneigðir hermenn opinberuðu kynhneigð sína. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert