Segja allt að 116 hafa farist í árásum

Ómannað loftfar (e. drone).
Ómannað loftfar (e. drone). AFP

Samkvæmt Barack Obama Bandaríkjaforseta hafa 64-116 almennir borgara fallið í loftárásum eða árásum ómannaðra loftfara í stjórnartíð hans. Tölurnar hafa verið gagnrýndar og eru sagðar alltof lágar.

Í þeim felst hins vegar viðurkenning á því að stjórnvöld vestanhafs vita ekki alltaf hversu margir almennir borgara falla í árásunum og kunna að endurmeta fjöldatölur með tíð og tíma.

Samkvæmt samantekt Bandaríkjastjórnar voru 473 loftárásir framkvæmdar á árunum 2009-2015, flestar með ómönnuðum loftförum (e. drones). Í árásunum féllu 2.372-2.581 hryðjuverkamenn.

Í frétt Guardian um málið segir m.a. að tölurnar nái ekki yfir dauðsföll almennra borgara í árásum í Afganistan, Sýrlandi né Írak, og þá sé hvergi tiltekið hvar fyrrnefndar árásir áttu sér stað.

Samkvæmt Bureau of Investigative Journalism standast tölurnar alls ekki en samtökin telja að efri mörkin séu yfir þúsund manns. Erfitt er hins vegar að staðfesta fjölda látinna, bæði vegna leyndarhyggju stjórnvalda og vandkvæða við upplýsingaöflun á átakasvæðum.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert