Skiptir sér ekki af máli Clintons

Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, ætlar að fylgja ráðleggingum saksóknara og yfirmanna bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, um hvort gefa eigi út ákæru á hendur Hillary Clinton í tengslum við notkun hennar á persónulega tölvupósti sínum er hún gegndi embætti utanríkisráðherra.

„Ég mun fylgja ráðleggingum þeirra,“ sagði hún við blaðamenn í dag. Hún sagði að sama teymi myndi ljúka rannsókn málsins - og ákveða hvort gefa ætti út ákæru í því - og hóf rannsóknina á sínum tíma. Hún myndi sjálf ekki skipta sér af því.

Hún sagðist hafa tekið þá ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum að fara í málinu eftir ráðleggingum starfsfólks hennar, sem og yfirmanna FBI. Hún hefði verið pólitískt skipuð og málið sjálft væri mjög pólitískt. Því gæti staða hennar vakið spurningar um hagsmunaárekstra.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, skipaði Lynch sem dómsmálaráðherra árið 2014.

Notkun Clinton á eigin vefþjóni á meðan hún var utanríkisráðherra hefur sætt mikilli gagnrýni. Alríkislögreglan og starfsmenn dómsmálaráðuneytisins hafa haft málið til rannsóknar, en óvíst er hvenær ákvörðun verður tekin um hvort gefa eigi út ákæru í málinu.

Fregnir bárust af því fyrr í vikunni að Lynch hafi fundað með Bill Clinton, eiginmanni Hillary. Lynch viðurkenndi í samtali við blaðamenn í dag að fundurinn með Bill hafi aðeins, ef eitthvað er, vakið enn frekari spurningar á meðal almennings um hvort hagsmunaárekstrar væru fyrir hendi.

Sagðist hún því hafa séð sig knúna til þess að tjá sig opinberlega um fundinn til þess að sefa áhyggjur almennings, að því er fram kemur í frétt New York Times.

„Ég held að fólk hafi margar ástæður til þess að spyrja sig hvernig við í stjórnsýslunni vinnum okkar vinnu. Og hvernig við förum með mál,“ sagði hún.

„Og ég skil mætavel að fundur minn í flugvélinni með fyrrum forsetanum Bill Clinton gæti gefið fólki enn aðra ástæðu til þess að spyrja sig og hafa áhyggjur.“

Fólk ætti hins vegar ekki að hafa neinar áhyggjur. Fundurinn með Bill hafi aðeins verið fundur á milli tveggja vina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert