Tveir Rússar sprengdu sig

Mennirnir á myndinni eru taldir vera árásarmennirnir sem sprengdu sig …
Mennirnir á myndinni eru taldir vera árásarmennirnir sem sprengdu sig í loft upp á flugvellinum í Istanbúl. AFP

Tveir af mönnunum þremur sem sprengdu sig í loft upp á Ataturk-flugvellinum í Istanbúl í Tyrklandi á þriðjudag voru frá Rússlandi. Þá er talið að heilinn á bak við hryðjuverkaárásina sé frá Tsjetsjeníu. Þetta kom fram í tyrkneskum fjölmiðlum í dag.

44 manns létu lífið í hryðjuverkaárásinni og yfir 230 manns særðust. Er flugvöllurinn einn sá fjölfarnasti í heiminum.

Saksóknarar hafa borið kennsl á lík tveggja af árásarmönnunum þremur, að sögn tyrkneska ríkisfjölmiðilsins Anadolu Agency. Eru það Rakim Bulgarov og Vadim Osmanov, báðir frá Rússlandi.

Tyrknesk yfirvöld neituðu að tjá sig um málið, en þau hafa hingað til ekki sagt opinberlega frá þjóðernum mannanna. Tyrkneskur embættismaður hafði áður sagt að mennirnir væru frá Rússlandi, Úsbekistan og Kirgistan.

Dagblaðið Yeni Safak greindi frá því að skipuleggjandi voðaverkanna, sem eru þau mannskæðustu í landinu á þessu ári, sé Akhmed Chatayev frá Tsjetsjeníu.

Chatayev er talinn starfa innan hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams en tyrkneskir fjölmiðlar halda því fram að starf hans felist meðal annars í því að þjálfa rússneskumælandi vígamenn.

Hann var handtekinn í Búlgaríu fyrir fimm árum að beiðni rússneskra yfirvalda, en honum var sleppt úr haldi vegna þess að hann hafði stöðu flóttamanns í Austurríki, að því er segir í frétt Reuters. Ári síðan fannst hann særður í Georgíu en aftur var honum sleppt úr haldi.

Tyrkneska lögreglan handtók í dag ellefu útlendinga í Istanbúl vegna gruns um að þeir tilheyrðu tyrkneskri sellu Ríkis íslams sem tengist árásinni. Alls hafa 24 manns verið handteknir vegna rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert