Gíslatakan í Dhaka yfirstaðin

Hermenn gæta öryggis á meðan aðgerðum stendur yfir.
Hermenn gæta öryggis á meðan aðgerðum stendur yfir. AFP

Allt að 13 gíslum var bjargað þegar 100 sérsveitarmenn réðust inn á veitingastað og handverksbakarí í borginni Dhaka í Bangladess í morgun, þar sem byssumenn héldu 20 eða fleirum föngnum. Forsætisráðherra landsins, Sheikh Hasina, hefur staðfest að sumir gíslanna hafi látist í árásinni.

Ráðherrann sagði einnig að sex byssumenn hefðu verið drepnir en einn handsamaður.

Mennirnir réðust inn í Holey Artisan Bakery í gærkvöldi, myrtu tvo lögreglumenn og tóku um 20 manns í gíslingu, þeirra á meðal sjö Ítali. Að sögn liðsforingja sérsveitarinnar, Tuhins Mohammads Masuds, voru Japani og tveir einstaklingar frá Sri Lanka meðal þeirra sem var bjargað.

Frétt mbl.is: Gíslataka á kaffihúsi í Bangladess

Guardian hefur eftir lögreglumanni á vettvangi að aðgerðum lögreglu hafi verið mætt með kúlnahríð og handsprengjum. Á sjónvarpsupptökum má sjá er fjöldi blóðugra lögreglumanna er leiddur af vettvangi.

Lögreglumenn leita skjóls nærri Holey Artisan Bakery.
Lögreglumenn leita skjóls nærri Holey Artisan Bakery. AFP

Samkvæmt sjónvarpsfregnum létu yfirvöld til skarar skríða um kl. 7.40, tíu tímum eftir að byssumennirnir réðust inn í bakaríið. Reuters hefur eftir ráðgjafa forsætisráðherra að ákveðið hafi verið að freista þess að frelsa gíslana þegar samningaviðræður við árásarmennina skiluðu ekki árangri.

Að sögn Benjirs Ahmeds, yfirmanns sérsveita lögreglunnar, voru byssumennirnir átta til níu talsins. Þá er haft eftir lögregluvarðstjóranum Binoy Krishna Bala að 27 lögreglumenn og að minnsta kosti einn almennur borgari hafi særst í aðgerðunum.

Mario Palmer, sendiherra Ítalíu í Bangladess, hefur staðfest að sjö Ítalir voru meðal gíslanna. „Þetta er sjálfsvígsárás. Vilji þeirra stendur til þess að framkvæma öfluga og blóðuga aðgerð og það er ekkert rými til samningaviðræðna,“ sagði Palmer.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst árásinni á hendur sér og birt myndir af einstaklingum sem samtökin segja hafa verið meðal þeirra sem létust.

Mohammad Jasimuddin, starfsmaður bakarísins, sem er einnig veitingastaður, var á vettvangi þegar byssumennirnir réðust inn ásamt 50-60 samstarfsmönnum sínum. Hann segir að fólkið hafi fyrst talið að um væri að ræða ræningja, sem myndu hverfa á braut eftir að hafa stolið verðmætum.

„Ég heyrði þá öskra Allahu Akbar og hleypa af. Við héldum að þeir myndu yfirgefa staðinn eftir 15 til 20 mínútur, en þess í stað fóru þeir upp á aðra hæð þar sem framkvæmdir standa yfir. Þeir skutu þaðan.“

Frétt mbl.is: Ríki íslams lýsir yfir ábyrgð

Að sögn Jasimuddins voru 25-30 viðskiptavinir inni á staðnum þegar árásin átti sér stað.

Fjöldi vopnaðra lögreglumanna var í viðbragðsstöðu við veitingastaðinn í nótt.
Fjöldi vopnaðra lögreglumanna var í viðbragðsstöðu við veitingastaðinn í nótt. AFP

Guardian hefur eftir lögreglu að byssumennirnir hafi einnig kastað sprengjum af annarri hæðinni.

Fazle Arshad Haque segist ekki hafa heyrt frá frænda sínum sem hugðist snæða á veitingastaðnum ásamt kærustu sinni á föstudagskvöld.

„Ég bý nálægt. Ég kem hingað með dóttur mína á hverjum degi til að kaupa ís,“ segir hann. Hann segist óttast um öryggi frænda síns og segist hafa litla tiltrú á lögreglunni, hún sé ekki í stakk búin til að fást við uppákomur af þessu tagi.

Frétt Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert