Byssumaðurinn var 18 ára

Frá München í kvöld.
Frá München í kvöld. AFP

Byssumaðurinn sem varð að minnsta kosti 10 að bana í München í dag var 18 ára með tvöfalt ríkisfang, íranskt og þýskt. Hann er nú látinn eftir að hafa fallið fyrir eigin hendi og er talinn hafa verið einn að verki. Þetta er meðal þess sem fram kom á fréttamannafundi lögreglunnar í München sem haldinn var í nótt.

10 eru látnir eftir árásina og 20 særðir, þar af þrír lífshættulega. Engar upplýsingar hafa verið veittar um fórnarlömbin aðrar en að ekki er talið að neinir lögregluþjónar hafi særst, en um 2.300 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í dag og í kvöld.

Lögregla segir árásarmanninn hafa verið búsettan í München „um nokkurt skeið“ en vildi ekki skýra það nánar. Spurð hvort það væru meira en tvö ár játti hún því.

Að sögn lögreglu liggur ekki fyrir hvaða hvatir lágu að baki árásinni. Engin tengsl hafa fundist við hryðjuverkasamtök en það verður rannsakað frekar hvort slík tengsl hafi verið fyrir hendi. Sagði hún manninn hafa hafið skothríð á skyndibitastað í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar Olympiu og síðan haldið inn í verslunarmiðstöðina, þar sem fórnarlömb hans féllu.

Maðurinn hafði eina skammbyssu en lögregla hafði ekki upplýsingar um hvort hann hefði haft fleiri skothylki á sér. Þá hefur hún ekki upplýsingar um hvar hann komst yfir vopnið.

Um tíma var talið að fleiri hefðu átt þátt í árásinni og var bíll með vitorðsmönnum talinn hafa flúið af vettvangi. Lögregla segir ekkert benda til annars en maðurinn hafi verið einn að verki og bíllinn sem flúði af vettvangi hafi verið óbreyttir borgarar á flótta undan árásarmanninum.

Lögregla mun veita frekari upplýsingar um hádegi á þýskum tíma á morgun, það er klukkan tíu fyrir hádegi að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert