Ekki marktækur munur á Clinton og Trump

Donald Trump, forsetaefni repúblikana.
Donald Trump, forsetaefni repúblikana. AFP

Ekki er marktækur munur á fylgi Donalds Trumps, forsetefnis repúblikana, og Hillary Clinton, forsetaefnis demókrata, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Reuters og Ipsos.

Fylgi Trumps mælist 38% en Clinton 41%. Munurinn er þó ekki marktækur vegna þess að vikmörkin eru fjögur prósentustig.

Donald Trump hefur sótt í sig veðrið að undanförnu og jókst fylgi hans töluvert meðan á landsþingi Repúblikanaflokksins í Cleveland stóð.

Könnun Reuters og Ipsos var gerð dagana 18.-22. júlí.

Áður en landsþingið hófst, síðasta mánudag, mældist fylgi Clinton um tíu prósentustigum meira en fylgi Trumps.

Ekki er óþekkt að fylgi forsetaframbjóðenda aukist í kjölfar landsþings. Fylgi Mitts Romneys, forsetaframbjóðanda repúblikana fyrir fjórum árum, jókst til að mynda um fimm prósentustig í kjölfar landsþings flokksins. 

Landsþing demókrata fer fram í Philadelphiu í næstu viku.

Clinton hefur haft forystu í flestum skoðanakönnunum undanfarna mánuði. Fylgi Trumps hefur ekki mælst meira síðan um miðjan maímánuð, þegar ljóst varð að Trump hefði sigrað í forkosningum Repúblikanaflokksins. Í kjölfarið dalaði það.

Könnunin var gerð í öllum fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna en alls voru 1.036 manns spurðir.

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert