Frændi Gulens handtekinn

Klerkurinn Fethullah Gulen.
Klerkurinn Fethullah Gulen. AFP

Lögreglan í Tyrklandi hefur handtekið náskyldan frænda tyrkneska klerksins Fethullah Gulens í tengslum við misheppnuðu valdaránstilraunina í síðustu viku.

Tyrkneskir fjölmiðlar greindu frá þessu í dag. Frændinn, Muhammet Sait Gulen, verður færður í varðhald í Ankara, höfuðborg landsins, en hann dvelur nú í borginni Erzurum í austurhluta landsins.

Eins og kunnugt er sakar Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, Fethullah Gulen um að standa á bak við valdaránstilraunina. Fethullah Gulen er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum.

Í maí á þessu ári var annar frændi Fethullah handtekinn í tengslum við skólana sem hreyfing Fethullah, Hizmet, rekur, að sögn tyrkneskra fjölmiðla.

Hreyfingin hefur rekið skóla í tugum landa, meðal annars í Afríku, Kasaktstan, Pakistan og Bandaríkjunum, með stuðningi auðugra kaupsýslumanna í Tyrklandi.

Fethullah, sem var eitt sinn náinn bandamaður Erdogans, hefur vísað ásökunum tyrkneskra stjórnvalda á bug.

„Erdogan er svo valdagráðugur að hann heldur að allir séu það líka. Hann er kominn af fátæku fólki og býr núna í mörgum höllum. Velgengni og völdin hafa gjörspillt honum,“ hefur Gulen sagt.

Tyrknesk stjórnvöld hafa krafist þess að Bandaríkjamenn framselji hann til Tyrklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert