„Við munum hefna okkar“

AFP

Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur fordæmt árásina á kröfugöngu í Kabúl, höfuðborg Afganistans, fyrr í dag og boðið Ashraf Ghani forseta alla þá aðstoð sem bandarísk stjórnvöld geta hugsanlega veitt.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Áttatíu manns létu lífið og 230 særðust.

Fram kemur á vef fréttamiðils samtakanna, Amaq, að tveir vígamenn með sprengjubelti hafi komið sér fyrir á meðal mótmælenda á Deh Mazang-torginu í Kabúl og sprengt sig þar í loft upp.

Árásin beindist að Hazörum, persneskumælandi Afgönum. Í frétt Ríkis íslams er sérstaklega bent á að flestir Hazarar séu sjía-múslimar.

Þúsundir Hazara voru komnir saman til þess að krefjast þess að ný rafmagnslína, sem til stendur að reisa, liggi í gegn­um Bamiy­an-hérað. Þar er mik­ill skort­ur á raf­magni og er svæðið eitt það bág­stadd­asta í Af­ghan­ist­an. Þar býr mik­ill fjöldi Haz­ara sem hafa lengi orðið fyr­ir mismun­un í land­inu.

Hryðjuverkasamtökin hafa gert árásir í Afganistan en þó er talið að þetta sé fyrsta árás þeirra í Kabúl. Talið er nokkuð víst að þetta sé mannskæðasta árás samtakanna í landinu.

Innanríkisráðuneyti Afganistans greindi frá því að þrír árásarmenn hefðu verið virkir. Einum hefði þó ekki tekist að sprengja sig í loft upp og annar var myrtur af öryggissveitum.

Ghani, forseti Afganistans, lýsti í dag yfir þjóðarsorg í landinu. „Ég lofa ykkur að við munum hefna okkar,“ sagði hann.

Frétt mbl.is: Brennd lík á víð og dreif

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert