Fundu brunnið lík í bíl

Eldur í Hollywood-hæðum við Los Angeles.
Eldur í Hollywood-hæðum við Los Angeles. AFP

Gríðarlegir skógareldar sem nú geisa í Kaliforníu hafa lagt 18 heimili í rúst og ógnað yfir 1.500 öðrum. Logarnir hafa þyrlast í gegnum eldfim og þurr gljúfur norðan við Los Angeles og í einu hverfi hafa yfirvöld fundið brunnið mannslík. Frá þessu greinir Guardian.

Frétt mbl.is: Miklir skógareldar í Kaliforníu

Bæði flugvélar og þyrlur hafa verið notaðar til að sleppa vatni og eldvarnarefnum yfir bálið sem hefur svert yfir 88 ferkílómetra af kjarrlendi nálægt borginni Santa Clarita. Tæplega 500 kílómetrum norðar berjast slökkviliðsmenn við 41 kílómetra bál.

Heitt er í veðri, lítill raki og miklir vindar sem gætu enn og aftur blásið upp vöxt skógareldanna. Átján heimili í Santa Clarita voru gjöreyðilögð og eitt skemmdist nokkuð á svæði þar sem kjarr hefur skorpnað í hitabylgju sem gengið hefur yfir svæðið. 

Þyrla sleppir vatni á eldinn.
Þyrla sleppir vatni á eldinn. AFP

Í gær fannst lík manns í brunninni bifreið utan við heimili í borginni. Dauðsfallið er til rannsóknar hjá lögreglu en ekkert virðist benda til þess að það hafi komið til vegna glæpsamlegs athæfis að sögn lögreglu.

Yfirvöld segja að yfir 1.600 slökkviliðsmenn berjist gegn eldinum.

Kom öllum á óvart

Logarnir neyddu einnig athvarf fyrir framandi dýr til að rýma húsakynni sín. 340 af yfir 400 dýrum, þar á meðal bengaltígrar og fjallaljón, voru flutt á brott. Sjálfboðaliðar komu á vörubílum og með tengivagna og fluttu dýrin hæfilega langt í burtu í um átta klukkustundir þar til slökkviliðið taldi eldinn ekki lengur ógna athvarfinu.

„Eldurinn kom öllum á óvart og virtist spretta upp úr engu,“ sagði talsmaður Wildlife Waystation-athvarfsins í Sylmar, Jerry Brown. „En útlitið er betra og yfirvöld segja að þrátt fyrir að það séu nokkrir heitir reitir í nágrenni við okkur sjái þeir engan lausan eld.“

Dýrunum var komið fyrir á þremur til fjórum stöðum og hyggst athvarfið bíða í sólarhring hið minnsta með að flytja þau aftur heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert