11.000 íþróttamenn - 450.000 smokkar

Svona er umhorfs í svefnherbergjunum þar sem íþróttafólkið mun sofa.
Svona er umhorfs í svefnherbergjunum þar sem íþróttafólkið mun sofa. AFP

Nú líður senn að því að bestu íþróttamenn heims drífi að Ólympíuþorpinu í Ríó, en leikar hefjast 5. ágúst nk. Íþróttafólkið mun hafast við í nýbyggðum íbúðaturnum, þar sem innréttingarnar eru fábrotnar en þjónustan sögð framúrskarandi.

Turnarnir munu hýsa samtals 11.000 íþróttamenn og 6.000 þjálfara. Íbúðirnar telja 3.604, en þrátt fyrir einfalda innanstokksmuni ku allur aðbúnaður í hinum 30 turnum vera hinn glæsilegasti; í „þorpinu“ verður m.a. að finna 24 stunda veitingaþjónustu, snyrtistofu og blómaverslun.

Íþróttafólkið mun sofa á eins manns dýnum sem hvíla á járngrind, en náttborðin og fataskáparnir hafa verið smíðaðir úr endurnýttum við. Engin sjónvörp verður að finna í vistarverum íþróttahetjanna en skipuleggjendur leikanna samþykktu eftir nokkuð þóf að koma upp loftræstikerfi til að sefa ótta vegna Zika-veirunnar.

Að sögn Paul Ramler, sem hefur séð Ólympíuþorpunum fyrir húsbúnaði síðan í Sydney árið 2000, telja salernissetur í turnunum 13.000, herðatrén 275.000 og rúmin 18.500. Hægt er að lengja rúmin eftir þörfum.

Á hinum fábrotnu baðherbergjum verður að finna sturtuhengi úr plasti og einfalda sporöskjulaga spegla, en hvorki skúffur né skápa til að geyma hina 450.000 smokka sem dreift verður til íþróttafólksins.

„Ég ímynda mér að þeir geymi þá í náttborðunum,“ segir Ramler um verjurnar.

Frétt CNN um aðbúnaðinn í Ólympíuþorpinu.

Turnarnir eru 31 og telja 17 hæðir.
Turnarnir eru 31 og telja 17 hæðir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert