Hálfbróðir Obama kýs Trump

Malik Obama hefur sjálfur reynt fyrir sér í stjórnmálum í …
Malik Obama hefur sjálfur reynt fyrir sér í stjórnmálum í Kenýu en án árangurs. AFP

Malik Obama, hálfbróðir Baracks Obama Bandaríkjaforseta, segist ætla að kjósa Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, í forsetakosningunum í nóvember.

Hann segist ætla að gera það vegna óánægju sinnar með stjórn bróður síns og vegna þess að hann er hrifinn af Trump. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Malik Obama er bandarískur ríkisborgari en þeir Barack eru samfeðra. Hefur hann búið í Washington frá árinu 1985. Hann hefur gegnt fjölda starfa en starfar nú sem sjálfstæður fjármálaráðgjafi.

Malik segir hugmynd Trumps um að neita múslímum að koma til Bandaríkjanna hljómi vel í hans eyrum þrátt fyrir að hann sé sjálfur múslími. „Ég er sjálfur múslími, auðvitað, en við getum ekki leyft fólki að ganga um og skjóta fólk í nafni Íslam,“ segir Malik.

Hann gagnrýndi valdatíð bróður síns og sagði að væntingar bandarísku þjóðarinnar hafi verið miklar eftir kjör hans árið 2008.

Í samtali við New York Post segist Malik nú vera Repúblikani, meðal annars vegna andstöðu sinnar við hjónabönd samkynhneigðra.

Bræðurnir voru eitt sinn nánir en hafa nú minna samband en áður. Malik var til að mynda svaramaður Baracks í brúðkaupinu hans. Þá hefur Malik einnig heimsótt Barack á skrifstofu hans í Hvíta húsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert