Mun hraðlest tengja Svíþjóð og Finnland?

Jarðgöngin fyrir hraðlestina myndu ná frá Stokkhólmi til Helsinki í …
Jarðgöngin fyrir hraðlestina myndu ná frá Stokkhólmi til Helsinki í Finnlandi. AFP

Ráðgjafafyrirtækið KPMG hefur nú reiknað út kostnaðinn við að byggja jarðgöng frá Stokkhólmi í Svíþjóð til Helsinki í Finnlandi. Ferðatími með lest í slíkum göngum yrði 30 mínútur og kostnaðurinn 180 milljarðar sænskra króna, eða rétt rúmlega 254 milljarðar íslenskra króna.

Göngin yrðu um 500 kílómetrar að lengd og myndu liggja undir eða í gegnum Álandseyjar. 

Samkvæmt skýrslu KPMG myndu með göngunum sparast um 25 milljónir ferðaklukkustunda á ári og einhver sparnaður yrði því í samfélagslegum kostnaði.

Mesti kostnaðurinn yrði samkvæmt skýrslunni gerð ganganna sjálfra undir hafinu og undir Álandseyjar. Hugmyndin er að í göngunum myndi ganga svokölluð Hyperloop-lest sem er ný tegund af hraðlest sem gerir það að verkum að ferðalagið yrði afar snöggt á milli landanna tveggja. Er einnig hugmyndin að með göngunum yrði hægt að búa til stærra „samnorrænt efnahagssvæði“ þar sem suðurhluti Finnlands yrði betur tengdur við suðurhluta Svíþjóðar og Noregs. 

Jarðgöngin eru enn aðeins á hugmyndastigi en í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að nokkrir aðilar séu áhugasamir um framkvæmdina. Aðilarnir á bak við hugmyndina benda á Öresund-brúna frá Svíþjóð til Kaupmannahafnar og efnahagslegu áhrifin sem sú brú hafði á atvinnulíf í Suður-Svíþjóð.

Sjá frétt SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert