Sprenging í Þýskalandi

Þetta er þriðja árásin í Þýskalandi á einni viku. Mynd …
Þetta er þriðja árásin í Þýskalandi á einni viku. Mynd úr safni. AFP

Sprenging varð í bænum Ansbach í Þýskalandi nú skömmu fyrir miðnætti að íslenskum tíma. Talsmaður innanríkisráðuneytis Bæjaralands segir ljóst að sprengingin var ekki slys.

Einn er látinn og 11 slasaðir að því er Guardian greinir frá.

Um 40 þúsund manns búa í Ansbach sem er í um 200 kílómetra fjarlægð frá München þar sem táningur skaut níu til bana á föstudag. Sú árás virtist innblásin af fjöldamorðunum í Osló og Útey árið 2011.

Bæjarstjórinn, Garda Seidel, segir „sprengibúnað“ hafa valdið sprengingunni. Vitnar Guardian í vefmiðilinn nordbayern.de sem segir Seidel hafa sagt að óljóst sé hvernig kveikt var á búnaðinum.

Seidel sagði sprenginguna hafa átt sér stað á vínbar. Þá segja aðrir þýskir miðlar að barinn hafi verið inngangurinn að tónlistarhátíð.

Þetta er þriðja árásin í Þýskalandi á einni viku. Síðastliðinn mánudag réðist 17 ára afganskur hælisleitandi á lestarfarþega með exi og særði fimm. 37 særðust og níu létust auk árásarmannsins í fyrrnefndri árás í München og fyrr í dag myrti sýrlenskur hælisleitandi konu með sveðju og særði tvo aðra.

Uppfært 00:14

Lögregla telur að hinn látni sé líklega gerningsmaðurinn samkvæmt Guardian.

Uppfært 00:49

Óstaðfestar heimildir RT herma að skömmu áður en sprengingin varð hafi manni með bakpoka verið meinaður aðgangur að tónlistarhátíðinni.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá lögreglu á vettvangi.

 Uppfært 00:53

Talan yfir slasaða hefur nú hækkað úr 11 í tólf. Þrír eru alvarlega særðir að sögn yfirvalda.

Uppfært 01:52

Maðurinn sem framdi sprengjutilræðið var 27 ára sýrlenskur hælisleitandi sem hafði verið neitað um að dvelja í Þýskalandi. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Ansbach. Hann hafði verið í landinu í tvö ár. Hann sprengdi sig upp eftir að honum var neitað um inngöngu á tónlistarhátíðina.

Honum var fyrst neitað um hæli fyrir ári síðan. Hann hafði reynt að fremja sjálfsmorð í tvígang áður en innanríkisráðherra Bæjaralands, Joachim Hermann, sagði ekki ljóst hvort hann hefði verið að reyna að bana öðrum en sjálfum sér með sprengingunni í kvöld.

Uppfært 02:05

Bráðaliðar reyndu að endurlífga tilræðismanninn en hann var of illa haldinn og lést af sárum sínum. Hann hafði verið undir eftirliti á geðdeild sjúkrahúss í Ansbach vegna fyrri sjálfsvígstilrauna. Engin tengsl liggja við hryðjuverkahópa liggja fyrir.

Uppfært 02:11

Hermann segir að manninum hafi verið leyft að vera áfram í Þýskalandi þrátt fyrir að hafa verið neitað um hæli vegna „aðstæðna í Sýrlandi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert