Fangelsi fyrir að teikna typpi

mbl.is

Ríflega tvítugri austurrískri konu brá í brún þegar hún kom heim til sín fyrr á árinu og skoðaði húðflúr sem hún hafði fengið karlkyns jafnaldra sinn til þess að setja á hana. Konan hafði óskað eftir því að kínverskt tákn yrði sett á hana en maðurinn, sem er áhugahúðflúrari, ákvað þess í stað að teikna á hana mynd af getnaðarlimi og skrifa ennfremur ókvæðisorð undir hana.

Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.at að atburðuinn hafi átt sér stað í borginni St. Pölten í Austurríki. Við réttarhöldin yfir manninum kom fram að hann hefði fyrst teiknað mynd af kínverska tákninu á blað og borið það undir hana. Hann hafi hins vegar horfið frá þeim áformum þegar kom að því að húðflúra myndina á bak konunnar og þess í stað teiknað liminn.

Þegar konan kom heim til sín ákvað hún að skoða afraksturinn í spegli og komst þá að hinu sanna. Þegar maðurinn var spurður að því fyrir dómi hvers vegna hann hefði húðflúrað getnaðarlim á bak konunnar í stað þess sem talað hefði verið um svaraði hann: „Bara.“

Maðurinn var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi en fyrir utan að vera ákærður fyrir að hafa valdið konunni líkamlegum áverkum var hann einnig ákærður fyrir önnur brot. Þar á meðal innbrot og slagsmál. Hann verður vistaður á stofnun fyrir andlega veika afbrotamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert