Fyrirskipa lokun 80 fjölmiðla

Fjöldi stofnana hefur orðið fyrir barðinu á herferð tyrkneskra stjórnvalda, …
Fjöldi stofnana hefur orðið fyrir barðinu á herferð tyrkneskra stjórnvalda, m.a. Murat Hudagendigar háskólinn sem búið er að loka. AFP

Yfirvöld í Tyrklandi hafa fyrirskipað lokun hátt í 80 fjölmiðla og er þetta nýjasti liðurinn í herferð stjórnvalda gegn þeim sem þau telja eiga aðild að tilraun til að steypa Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta af stóli 15. júlí sl.

Fréttavefur BBC segir að tilkynnt hafi verið um lokun þriggja fréttastofa, 16 sjónvarpsstöðva, 45 dagblaða og 15 tímarita.

Fyrr í dag fóru stjórnvöld þá fram á varðhald yfir 47 blaðamönnum, en sl. mánudag var gefin út handtökutilskipun á hendur 42 fréttamönnum.

Flestir blaðamannanna á nýja listanum störfuðu hjá Zaman-dagblaðinu, sem hætt hefur verið útgáfu á, samkvæmt tyrkneskum fjölmiðlum.

1.700 hermenn leystir frá störfum

Þá voru 1.700 liðsmenn í tyrkneska hernum leystir frá störfum í aðskilinni aðgerð, þar af 149 hershöfðingjar.

Það var ríkisfjölmiðillinn Resmi Gazete sem tilkynnti lokun fjölmiðlanna og að hermennirnir hefðu verið leystir frá störfum. Meðal þeirra hershöfðingja sem voru látnir taka pokann sinn voru 87 hershöfðingjar í landhernum, 30 í flughernum og 32 flotaforingjar.

Tyrkneski herinn greindi frá því fyrr í dag að um 1,5% tyrk­neska hers­ins hefðu tekið þátt í vald­aránstilraun­inni í land­inu fyrr í mánuðinum og hefðu 35 flug­vél­ar, 37 þyrl­ur, 74 skriðdreka og þrjú skip í vopna­búri sínu. 

8.651 hermaður hefði tekið þátt í til­raun­inni, þar af 1.214 nem­ar inn­an hers­ins sem hefðu sleg­ist í hóp upp­reisn­ar­mann­anna.

Um 16.000 manns hafa verið hand­tekn­ir í kjöl­far til­raun­ar­inn­ar, en Er­dog­an Tyrk­lands­for­seti hef­ur heitið því að hreinsa rík­is­stofn­an­ir af þeirri „veiru“ sem kom upp­reisn­inni af stað.

Að minnsta kosti 246 létu lífið og yfir 2.000 særðust í átök­un­um sem fylgdu til­raun­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert