Saka friðargæsluliða um að hindra ekki nauðganir

Fjöldi almennra borgara leitaði skjóls í búðum Sameinuðu þjóðanna þegar …
Fjöldi almennra borgara leitaði skjóls í búðum Sameinuðu þjóðanna þegar átökin blossuðu upp og halda þar enn til. AFP

Sameinuðu þjóðirnar hafa skráð að minnsta kosti 120 nauðganir frá því að til átaka kom að nýju í Suður-Súdan og rannsaka nú ásakanir um að friðargæsluliðar hafi ekkert gert til að koma í veg fyrir árásirnar.

„Við lítum ásakanir um að friðargæsluliðar hafi ekki komið almennum borgurum í vanda mjög alvarlegum augum,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Farhan Haq, talsmanni Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan.

„Það er að sjálfsögðu það sem þeir eiga að gera og það hefði verulegar afleiðingar ef þeir vanrækja þessar skyldur.“

Fjölmiðlar segja vitni hafa greint frá því að friðargæsluliðar hafi fylgst með og ekkert gert á meðan ráðist var á a.m.k. eina konu.

AP-fréttastofan tók viðtal við einstakling sem varð vitni að slíkri árás, en hann sagði a.m.k. 30 nepalska og kínverska friðargæsluliða hafa fylgst með er kona hrópaði á hjálp þegar tveir hermenn réðust á hana í nágrenni búða friðargæsluliðanna.

Haq sagði starfsmenn Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan vera að kanna ásakanir um að friðargæsluliðar hafi látið hjá líða að vernda almenna borgara.

Suðursúdanskir hermenn og menn klæddir sem almennir borgarar eru sagðir hafa staðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, m.a. hópnauðgunum á almennum borgurum m.a. í nágrenni búða Sameinuðu þjóðanna í Juba, höfuðborg Suður-Súdan.

Sum fórnarlömb árásanna eru sögð vera á barnsaldri.

Til átaka kom í Juba í byrjun þessa mánaðar milli stuðningsmanna forseta og varaforseta landsins. Tæplega 300 manns létust í átökunum og þúsundir almennra borgara leituðu skjóls í búðum Sameinuðu þjóðanna.

Haq segir friðargæsluliða nú hafa fjölgað eftirlitsferðum í nágrenni búðanna sem og annars staðar í borginni. Þá fylgi þeir einnig konum sem fari út úr búðunum til að safna eldivið og ná í vistir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert