Telja sig hafa fundið 340 ára ost

Kafarar sem hafa verið að rannsaka skipsflak við suðausturströnd Svíþjóðar hafa fundið tindollu sem þeir telja innihalda sterklyktandi 340 ára gamlan ost. „Við erum vissir um að þetta er einhvers konar mjólkurvara; smjör eða ostur,“ segir Lars Einarsson, sem starfar hjá safni Kalmar-sýslu og hefur umsjón með rannsóknunum.

Flakið sem um ræðir er Kronan, 126 fallbyssna herskip sem sökk árið 1676.

„Þetta er eins og blanda af geri og roquefort, einhvers konar vel þroskaður, ógerilsneyddur ostur,“ sagði Einarsson í samtali við sænska fjölmiðla. Hann sagði að þrátt fyrir að hann væri sjálfur fyrir lyktsterka osta, væri þessi líklega ekki fyrir alla.

Dallurinn sem osturinn fannst í verður nú rannsakaður en að sögn Einarsson fannst hann grafinn ofan í leir. Þegar komið var upp á yfirborðið, gerði þrýstingsbreytingin það að verkum að hluti innihaldsins lak út, en það var þá sem lyktin gerði vart við sig.

Einarsson segist ekki mæla með því að bragðað verði á ostinum. „Þetta er bakteríumassi.“

Rannsókn á skipinu hefur staðið yfir í tvær vikur en meðal þeirra gripa sem hafa fundist eru 14 gullpeningar, demantshringur og umtalsvert magn lyfja.

Hin 53 metra langa Kronan, sem var eitt stærsta herskip síns tíma, sprakk og sökk suður af Öland 1. júní 1676, í aðdraganda orrustu við dansk-hollenskan flota. Aðeins 42 af 800 manna áhöfn komust af lifandi.

Kronan fannst árið 1980 og síðan þá hafa fundist fleiri en 30.000 gripir í eða nærri flakinu. Þá hafa fundist 400 kg af mannabeinum.

Að sögn Einarsson er mögulegt að sérstakt safn verði tileiknað skipinu, en hann vildi ekki tjá sig um það hvort osturinn yrði þar á meðal sýningargripa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert