Var á spjallsvæði rétt fyrir árásina

Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, segir árásarmanninn hafa haft mikið fé …
Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, segir árásarmanninn hafa haft mikið fé á sér sem sé óvenjulegt fyrir hælisleitanda. AFP

Sýrlenski hælisleitandinn sem sprengdi sig í loft upp í borg­inni Ans­bach í Þýskalandi sl. sunnudag með þeim af­leiðing­um að fimmtán manns særðust var rétt áður í samskiptum við einstakling sem hafði bein áhrif á árásina.

Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands, segir árásarmanninn hafa átt í samskiptum við óþekktan einstakling á spjallsvæði rétt fyrir árásina. „Svo virðist sem hann hafi verið í beinu sambandi við einhvern sem hafði veruleg áhrif á það hvernig árásin var gerð,“ sagði Herrmann. „Spjallinu lauk rétt fyrir árásina.“

Herrmann sagði ekki ljóst hvort viðkomandi hefði bein tengsl við Ríki íslams, hvar hann hefði verið staddur, né heldur hvort hann hefði verið lengi í sambandi við árásarmanninn.

Segja árásarmanninn hafa verið Al-kaída-liða

Herr­mann greindi frá því á mánudag að tveir farsím­ar, fjöl­mörg minn­iskort og far­tölva hefðu fund­ist - ann­ars veg­ar á líki manns­ins og hins veg­ar á dval­arstað hans. Maður­inn hefði enn frem­ur hótað hefnd­arárás­um gegn Þjóðverj­um í mynd­bönd­un­um og heitið hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hollustu. Þá hefði sprengj­an aug­ljós­lega verið hönnuð til að valda sem flest­um dauðsföll­um. 

Ríki íslams hefur lýst ábyrgð á árásinni og Al-Naba, fréttamiðill samtakanna, segir árásarmanninn hafa verið lengi í sambandi við Al-kaída.

Hann hafi átt rætur í borginni Aleppo í Sýrlandi en gengið í raðir Al-kaída liða í Írak. Eftir að stríð braust út í Sýrlandi 2011 hafi hann gengið í raðir uppreisnarliða Al-Nusra í Sýrlandi, sem nú tengjast Al-kaída-samtökunum. Hann hafi síðan særst í átökum í Aleppo og í kjölfarið haldið til Evrópu til að leita læknisaðstoðar. Þaðan hafi hann síðan fylgst með baráttu Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak á sama tíma og hann skipulagði sína eigin árás í Þýskalandi, að því er Al-Naba greinir frá.

Gæti framið sjálfsmorð með „tilkomumiklum hætti“

Yfirvöld í Þýskalandi segja árásarmanninn hafa komið sem hælisleitandi til Þýskalands fyrir tveimur árum. Hælisumsókn hans hafi hins vegar verið hafnað eftir ársdvöl í landinu þar sem hann hafði þegar hlotið stöðu flóttamanns í Búlgaríu.

Hann hafði í tvígang reynt að fremja sjálfsmorð og dvaldi á geðsjúkrahúsi um tíma. Hermann segir háar fjárhæðir ennfremur hafa fundist á árásarmanninum og í herbergi hans, sem sé óvenjulegt fyrir hælisleitendur.

Samkvæmt greiningu sem geðlæknar unnu á árásarmanninum í fyrra var talinn möguleiki á að hann myndi fremja sjálfsmorð með „tilkomumiklum hætti“, þar sem hann hafi talið sig hafa engu að tapa eftir dauða eiginkonu sinnar og sex mánaða sonar.

Ekki liggur fyrir hvar eða hvenær fjölskylda hans lést.

Þýska útlendingastofnunin segir geðheilsu mannsins ástæðu þess að ekki var þegar búið að vísa honum úr landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert