Ætlaði að taka þátt í árásunum í París

130 manns fórust í árásunum í París í nóvember. Talið …
130 manns fórust í árásunum í París í nóvember. Talið er að Haddadi hafi ætlað að taka þátt í árásunum. ERIC FEFERBERG

Yfirvöld í Austurríki hafa framselt tvo menn til Frakklands, sem eru grunaðir um að tilheyra sömu sellu hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams og tilræðismennirnir sem urðu 130 manns að bana í París í nóvember á síðasta ári.

Mennirnir tveir, Alsírbúinn Adel Haddadi og Pakistaninn Usman Gani, voru teknir höndum í desember á síðasta ári í flóttamannamiðstöð í Austurríki.

Rannsakendur telja þá Haddadi og Gani hafa ferðast frá grísku eyjunni Lesbos á sama báti og tveir þeirra sem tóku þátt í árásunum í París í nóvember. Talið er að um sé að ræða íraska tilræðismenn sem frömdu sjálfsvígsárásir fyrir utan Stade de France-leikvanginn.

Haddadi og Gani, voru hins vegar teknir af grískum yfirvöldum og voru vistaðir í fangelsi í 25 daga vegna þess að þeir voru með fölsuð sýrlensk vegabréf. Þegar þeir voru látnir lausir fylgdu þeir flóttamannastraumnum og komu til Salzburg í Austurríki í lok nóvember.

Austurríska lögreglan handtók mennina, sem dvöldu í miðstöð fyrir hælisleitendur, nokkrum tímum eftir að frönsk yfirvöld greindu frá því að þeir kynnu að vera í landinu.

Haddadi sagði rannsakendum að hann vildi komast til Frakklands til að „framkvæma ætlunarverk“ sitt og hefur AFP eftir heimildamanni sem tengist rannsókninni að Haddadi hafi átt að taka þátt í árásunum í París ásamt ferðafélögum sínum.

Dómstóll í Austurríki féllst á framsalsbeiðni franskra yfirvalda í júlí.

AFP-fréttastofan segir Gani talinn hafa búið til sprengjur fyrir íslamska öfgahópa í Pakistan, m.a. Lashkar-e-Taiba-samtökin sem yfirvöld á Indlandi telja bera ábyrgð á árásunum í Mumbai 2008, þar sem 166 manns fórust.

Gani reyndi að fá framsalsbeiðninni hafnað og bar því við að hann myndi ekki njóta réttlætis hjá frönskum dómstólum, auk þess sem hann óttaðist um eigið öryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert