Dæmt í hóstamixtúrumáli

Sum samtök í Panama hafa haldið því fram að dauðsföll …
Sum samtök í Panama hafa haldið því fram að dauðsföll af völdum mixtúrunnar hafi í raun numið þúsundum. AFP

Fimm hafa verið dæmdir í fangelsi í Panama vegna dauða hundraða manna sem létust eftir að hafa innbyrt hóstasaft sem innihélt efni sem m.a. er notað í frostlög.

Að sögn yfirvalda létust um 400 manns af völdum efnisins árið 2006, en mixtúrunni var dreift af heilbrigðisstofnun landsins. Innihaldsefnið kom hins vegar frá einkafyrirtæki, Medicom.

Sumir halda því fram að raunverulegur fjöldi dauðsfalla af völdum hóstasaftarinnar nemi þúsundum.

Medicom keypti innihaldsefnið, merkt TD glycerin, frá spænsku lyfjafyrirtæki að nafni Rasfer International, sem keypti það frá kínversku fyrirtæki, CNSC Fortune Way Company. Það fékk efnið hjá Taixing Glycerine Factory.

Efnið reyndist innihalda stóra skammta af diethylene glycol; eitruðum, lyktarlausum, sætum vökva. Vökvinn er notaður sem leysiefni, í bremsuvökva, sem eldsneyti og í frostlög.

Í kjölfar harmleiksins var rannsóknum hrint af stað í Panama, á Spáni og í Kína. Í Panama voru 26 ákærðir, en 11 mál enduðu fyrir dómstólum. Í dag var lagafulltrúi Medicom, Angel Ariel de la Cruz Soto, dæmdur í fimm ára fangelsi og sektaður um 6.000 Bandaríkjadali.

Fjórir aðrir sem hlutu dóm voru dæmdir í árs fangelsi en sex voru sýknaðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert