Sakar bandarískan hershöfðinga um að vera á bandi valdaræningjanna

Hershöfðinginn Joseph L. Votel segir allar fréttir af því að …
Hershöfðinginn Joseph L. Votel segir allar fréttir af því að hann tengist valdaráninu á einhvern hátt vera bæði „óheppilegar og fullkomlega rangar.“ AFP

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sakaði í dag hershöfðingja í Bandaríkjaher um að vera á bandi valdaræningjanna, sem gerðu tilraun til að steypa forsetanum af valdastóli 15. júlí.

Ummælin lét Erdogan falla eftir að Joseph Votel, yfirmaður miðstjórnar Bandaríkjahers,  sagði þá ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda, að fangelsa stóran hóp tyrkneska hershöfðingja, kunna að skaða hernaðarsamstarf ríkjanna.

Erdogan sagði Votel frekar eiga að þakka Tyrkjum fyrir að tryggja lýðræði í landinu.

Að sögn innanríkisráðherra Tyrklands hafa 18.000 manns nú þegar verið hnepptir í varðhald vegna gruns um þátttöku í valdaránstilrauninni.

„Við höfum sannarlega átt í sambandi við fjölda tyrkneskra stjórnenda – sérstaklega stjórnenda innan hersins. Ég hef áhyggjur af því að hvaða áhrif þetta mun hafa á samskipti okkar,“ var haft eftir Votel í fjölmiðlum í gær.

Erdogan sagði ekki Votels að ákveða slíkt. „Hver ert þú eiginlega? Vertu meðvitaður um stöðu þína! Þú ert að taka hlið valdaræningjanna í stað þess að þakka þessu ríki fyrir að brjóta valdaránstilraunina á bak aftur,“ sagði Erdogan. „Gagnrýnendur segjast hafa áhyggjur af framtíð Tyrklands. En hvað er það sem þessir herrar hafa áhyggjur af? Hvort gæsluvarðhaldsúrskurðum muni fjölga og fleiri verða handteknir? Ef fleiri eru sekir mun þeim fjölga.“

Erdogan sagði sitt fólk vita hverjir stæðu að baki valdaránstilrauninni og Votel komi upp um sjálfan sig með yfirlýsingunni.

Votel hefur að sögn fréttavefjar BBC tjáð sig um þessi ummæli Erdogans og segir hann allar fréttir af því að hann tengist valdaráninu á einhvern hátt vera bæði „óheppilegar og fullkomlega rangar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert