Moskító á Flórída talið bera Zika-veiruna

Miami-Dade-sýsla er eitt stærsta lestunarsvæði Bandaríkjanna fyrir vörur frá þeim …
Miami-Dade-sýsla er eitt stærsta lestunarsvæði Bandaríkjanna fyrir vörur frá þeim löndum Suður-Ameríku þar sem Zika-veiran hefur náð útbreiðslu. AFP

Talið er að moskítóflugur í Miami hafi borið Zika-veiruna í fjóra einstaklinga, sem greinst hafa með veiruna þar nýlega og sem ekki hafa verið á ferðalögum utan Flórída.

Fréttavefur New York Times hefur eftir bandaríska heilbrigðiseftirlitinu að líklegt sé talið að um sé að ræða fyrsta smit Zika-veirunnar sem eigi sér stað innan Bandaríkjanna.

Starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins telja smitsvæðið vera um 1,6 ferkílómetra svæði norður af miðbæ Miami. Ekki hefur enn tekist að finna neinar moskítóflugur sem bera með sér veiruna, en starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins ganga nú á milli húsa í hverfinu og safna þvagprufum frá íbúum til frekari rannsókna.

Miami-Dade-sýsla er eitt stærsta lestunarsvæði Bandaríkjanna fyrir vörur frá þeim löndum Suður-Ameríku þar sem Zika-veiran hefur náð útbreiðslu. Sérfræðingar hafa enda lengi talið að Miami væri sá hluti Bandaríkjanna þar sem mest hætta væri á að smit næði að þróast.

Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, sagði í yfirlýsingu að hinir smituðu væru þrír karlar og ein kona. Ekki var gefið upp hvort konan væri með barni, en Zika-veiran hefur m.a. valdið svokölluðum smáheila í nýburum.

„Það hafa enn engar moskítóflugur fundist með Zika-veiruna,“ sagði Scott. „Heilbrigðiseftirlitið er þó að gera ítarlegar prófanir á fólki á svæðinu til að tryggja að það séu engin fleiri tilfelli.“ Hann kvaðst hvetja þá íbúa, sem vilja láta rannsaka sig, til að hafa samband við heilbrigðiseftirlitið.

Scott sagði veiruna vera virka í einstaklingunum fjórum sem greindust með hana, en að þeir sýni engin einkenni sem krefjist sjúkrahúsvistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert