Hluti úr flugvélarvæng MH370 fundinn?

Vænghlutinn sem nú er til rannsóknar hjá áströlsku samgönguslysanefndinni og …
Vænghlutinn sem nú er til rannsóknar hjá áströlsku samgönguslysanefndinni og sem talinn er vera úr MH370 flugvélinni. AFP

Stór hluti af flugvélarvæng sem fannst á eyju í nágrenni Tansaníu er sterklega talinn vera úr farþegaflugvél Malaysia Airlines sem hvarf af ratsjárskjám yfir Indlandshafi í mars 2014. Þetta hefur fréttastofa CNN eftir Darren Chester, samgöngumálaráðherra Ástralíu.

Vænghlutinn fannst í lok júnímánaðar á eyjunni Pemba og hefur nú verið fluttur til nánari skoðunar hjá samgönguslysanefnd Ástralíu.

„Sérfræðingar halda áfram að rannsaka hlutinn til að meta hvaða upplýsingar sé hægt að fastsetja út frá honum,“ hefur CNN eftir Chester.

Til þessa hefur brak sem talið er úr MH370-flugvélinni fundist við strendur Reunion-eyju og í Mósambík, Máritíus og Suður-Afríku. Aðeins hefur verið staðfest að einn þessara brakhluta  sé úr vélinni en hinir þrír eru taldir „mjög líklega“ tilheyra flugvélinni, að sögn ástralskra yfirvalda.

Brakið hefur fundist á svæði sem þykir staðfesta þann grun að vélin hafi farið niður á núverandi leitarsvæði í suðurhluta Indlandshafs. Engir þeirra hluta sem fundist hafa þykja þó líklegir til að varpa ljósi á hvar vélina sé að finna.

Tilkynnt var fyrr í þessum mánuði að frekari leit að flugvélinni yrði frestað um óákveðinn tíma, fyndust engar frekari vísbendingar um hvar hana væri að finna á núverandi leitarsvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert