Kortleggja kynlífsvenjur Svía

Sænska ríkisstjórnin ætlar að kortleggja kynlífsvenjur sænsku þjóðarinnar í nýrri stórri rannsókn. Þetta kemur fram í pistli Gabriels Wikströms, ráðherra lýðheilsumála, í dagblaðinu Dagens Nyheter í dag.

Segir þar að um 20 ár séu frá því að slík rannsókn var síðast gerð. Nýlega greindu fjölmiðlar landsins frá því að Svíar stunduðu minna kynlíf en áður. „Það er mikilvægt að kanna hvort þetta sé rétt, og, ef svo er, hver sé ástæðan,“ skrifar Wikström í dag.

Hann segir að ef ástæðan fyrir minnkandi kynlífi sé álag, stress eða aðrir heilbrigðisþættir sé þetta einnig pólitískt vandamál.

Lýðheilsustofnun Svíþjóðar hefur nú verið beðin að rannsaka málið og verður skýrslu hennar skilað til ríkisstjórnarinnar í júní 2019.

„Kynlíf er nokkuð sem hefur áhrif á heilbrigði fólks. Við getum ekki einungis rætt kynsjúkdóma, heldur verðum við líka að ræða það sem er frábært við kynlíf,“ skrifar Wikström.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert