Reyndi að komast með Kermiche til Sýrlands

Adel Kermiche hét Ríki íslams hollustu í myndbandsávarpi áður en …
Adel Kermiche hét Ríki íslams hollustu í myndbandsávarpi áður en hann réðst inn í kirkjuna. Vinur hans, sem áður hafði reynt að komast með Kermiche til Sýrlands, hefur verið handtekinn í Sviss. AFP

Vinur annars mannanna, sem réðust inn í kirkju í Frakklandi sl. þriðjudag og myrtu prest var settur í varðhald nokkrum dögum fyrir árásina.

Fréttavefur BBC greinir frá því að drengurinn, sem er 17 ára gamall, hafi áður reynt að komast til Sýrlands með Adel Kermiche, öðrum árásarmannanna. Hann var handtekin í Genf fyrr í þessum mánuði og framseldur frönskum yfirvöldum.

Nokkrum dögum síðar myrti Kermiche vinur hans séra Jacques Hamel í kirkju í St-Etienne-du-Rouvray.

Fréttir af varðhaldi vinar Kermiche, sem hét Ríki íslams hollustu í myndbandsávarpi, koma fram á sama tíma og franska leyniþjónustan er undir smásjá fjölmiðla og stjórnvalda.

Dagblöðin Le Parisien og Tribune de Geneve segja ekki vitað hvers vegna drengurinn var í Genf, en hann hafði fyrr á þessu ári reynt að fljúga til Sýrlands í gegnum Sviss með Kermiche. Báðir voru hins vegar sendir til baka er þeir millilentu í Tyrklandi og Kemiche dæmdur til fangelsisvistar í framhaldinu. Vinur hans var svo handtekinn á ný í Sviss í þessum mánuði.

Heimildamaður AFP-fréttastofunnar segir ekkert benda til að drengurinn tengist árásunum í kirkjunni þar sem Kermiche og annar árásarmaður, Abdel Malik Petitjean, voru skotnir af  lögreglu eftir að hafa skorið prest á háls og tekið aðra kirkjugesti í gíslingu.

Kermiche var með ökklaband er árásin var gerð, þrátt fyrir að saksóknari hefði farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum. Slökkt var öklabandinu þegar árásin var gerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert