Þáttur í víðtækari aðgerðum

Forsíða nytimes.com.
Forsíða nytimes.com. Skjáskot

Tölvuþrjótar sem taldir eru starfa fyrir rússnesk öryggisyfirvöld hafa látið til skarar skríða gegn blaðamönnum New York Times og annarra bandarískra fjölmiðla, að því er CNN hefur eftir bandarískum embættismönnum.

Tölvuglæpirnir eru til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni og öðrum öryggisstofnunum. Rannsakendur telja líklegt að rússnesk yfirvöld standi að baki árásunum og að þær séu þáttur í víðtækari aðgerðum sem hafa m.a. beinst að einstaklingum og stofnunum innan Demókrataflokksins.

FBI neitaði að tjá sig um málið þegar CNN leitaði eftir því og talsmaður New York Times vildi hvorki staðfesta árásirnar né yfirstandandi rannsókn.

Samkvæmt heimildarmönnum CNN telja menn að rússneskar njósnastofnanir hafi freistað þess í röð netárása að safna upplýsingum frá ýmsum samtökum með tengsl inn í bandarísk stjórnmál.

Fjölmiðlar eru álitnir fýsileg skotmörk þar sem hjá þeim má finna upplýsingar um tengsl blaðamanna við stjórnmálamenn, samskipti og óútgefin skrif sem kunna að innihalda viðkvæmar upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert