Obama harmi lostinn í Louisiana

Barack Obama Bandaríkjaforseti hét því í dag að hjálpa til við endurreisn Louisiana-ríkis á næstu mánuðum, en Obama hefur í dag verið á ferð um flóðasvæðin í Baton Rouge og nágrenni.

„Við erum harmi lostin vegna þeirra sem létust,“ sagði Obama að ferðinni lokinni. Hann lofaði aðgerðir yfirvalda í Louisiana og hafnaði þeirri gagnrýni að hann væri of seint á ferðinni.

Gert er ráð fyrir að Obama muni síðar í dag funda með fjölskyldu blökkumannsins Alton Sterlings, sem hvítir lögreglumenn drápu, og með fjölskyldum lögreglumannanna sem létust í árásum í Baton Rouge í síðasta mánuði.

Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, heimsótti Louisiana fyrir fjórum dögum. Hann og ýmsir aðrir hafa gagnrýnt Obama fyrir að stytta ekki sumarfrí sitt og heimsækja flóðasvæðið fyrr.

Obama hvatti Bandaríkjamenn hins vegar til að beina athygli sinni frekar að því að aðstoða íbúa Louisiana. „Stundum er það svo að þegar flóðavatnið rénar missir fólk athyglina. Þetta er ekkert andartaksverkefni. Þetta er ekki myndatækifæri,“ sagði Obama.

Trump skaut til baka á forsetann í dag með Twitter-skilaboðum: „Obama forseti hefði átt að fara til Louisiana fyrir mörgum dögum í stað þess að vera í golfi. Þetta er of lítið og of seint.“

Barack Obama Bandaríkjaforseti gengur með íbúum Baton Rouge um flóðasvæðin …
Barack Obama Bandaríkjaforseti gengur með íbúum Baton Rouge um flóðasvæðin og virðir fyrir sér skemmdirnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert