Rannsaka gerviárás vígamanna

Sölumaður með varning sinn í miðbæ Prag. Aðgerðarsinnar klæddir sem …
Sölumaður með varning sinn í miðbæ Prag. Aðgerðarsinnar klæddir sem vígamenn í heilögu stríði ollu skelfingu er þeir hrópuðu „Allahu Akbar“ og hleyptu skotum úr leikfangabyssum á mannfjölda á torgi gamla miðbæjarins. AFP

Lögregluyfirvöld í Tékklandi tilkynntu í dag að þau væru nú með til rannsóknar bellibragð hóps aðgerðasinna, sem andsnúnir eru íslamstrú, sem olli mikilli hræðslu í miðbæ Prag um helgina.

AFP-fréttastofan hefur eftir Tomas Hulan, talsmanni lögregluyfirvalda í Prag, að lögregla sé nú að rannsaka „meinta röskun á almannafriði“, þá sé heldur ekki útilokað að ákært verði fyrir dreifingu á röngum og kvíðvænlegum upplýsingum.

Aðgerðasinnarnir voru klæddir sem vígamenn í heilögu stríði og hrópuðu „Allahu Akbar“ og hleyptu af skotum úr leikfangabyssum er þeir hlupu inn í mannfjöldann á torgi gamla miðbæjarins, sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Mikill ótti greip um sig meðal margra ferðamanna sem flúðu óttaslegnir og földu sig á veitingastöðum umhverfis torgið.

Brellan var skipulögð af Martin Konvicka, leiðtoga aðgerðasinnanna, og hefur verið fordæmd jafnt af tékkneskum stjórnmálamönnum sem og fjölmiðlum í landinu.

Milan Chovanec, innanríkisráðherra Tékklands, sagði brelluna vera „fávitahátt“.

Konvicka sagðist hins vegar hafa vonast til að sjokkera fólk með brellunni, sem lögregla stöðvaði eftir 20 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert