Epi-penninn hækkar um 400% á 5 árum

Epi-penninn svokallaði.
Epi-penninn svokallaði. AFP

American Medical Association hefur kallað eftir því að framleiðendur EpiPen, neyðarpenna sem notaður er gegn ofnæmisviðbrögðum, lækki verðið á pennanum en það hefur hækkað úr 100 Bandaríkjadölum í 500 dali á fimm árum.

Fregnir af hækkuninni hafa vakið mikla reiði en gagnrýnendur segja marga foreldra ekki hafa ráð á að fjárfesta í hinum lífsbjargandi penna.

Neyðarpenninn inniheldur adrenalín og er notaður til að bjarga þeim sem haldnir eru bráðaofnæmi, t.d. fyrir hnetum eða býflugustungum, frá lífshættulegum viðbrögðum.

Forseti AMA, Andrew Gurman, segir gagnrýnivert að þrátt fyrir að framleiðslukostnaður hafi staðið í stað hafi Mylan Pharmaceuticals hækkað vöruverðið um 400%.

„AMA hefur löngum hvatt lyfjageirann til að halda aftur af sér við lyfjaverðlagningu og þar sem líf eru í húfi hvetjum við framleiðandann til að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma hömlum á þennan óheyrilega kostnað.“

Í Frakklandi kosta tveir Epi-pennar 85 Bandaríkjadali. Mylan hefur hins vegar einkaleyfi á lyfinu í Bandaríkjunum. Tekjur fyrirtækisins vegna þess eru taldar nema um 1,2 milljörðum Bandaríkjadala á ári.

Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, var spurður um málið í dag og sagðist ekki vilja tjá sig um viðskiptahætti Mylan. Hann sagði hins vegar að lyfjafyrirtæki ættu það til að verða gráðug og skemma orðspor sitt með því að níðast á neytendum. Sagði hann það vekja siðferðilegar spurningar í hugum fólks.

Hillary Clinton, forsetaefni demókrata, hefur kallað eftir því að Mylan lækki verðið á Epi-pennanum. Sagði hún m.a. að milljónir manna reiddu sig á lyfið, sem skipta þyrfti út á 12-18 mánaða fresti. Sagði hún að sem forseti myndi hún krefja lyfjafyrirtæki um útskýringar þegar þau réðust í umtalsverðar verðhækkanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert