Hælisleitendur flykkjast frá Svíþjóð

AFP

Yfir tíu þúsund hælisleitendur í Svíþjóð hafa yfirgefið landið það sem af er ári. Fólkið fer af fúsum og frjálsum vilja en mun færri hafa sótt um hæli í Svíþjóð í ár en á síðasta ári.

Alls sóttu 163 þúsund manns um hæli í Svíþjóð í fyrra en eftir að stjórnvöld hertu reglur um komu flóttafólks til landsins, til að mynda með því að krefjast þess að allir sýni skilríki með mynd við komuna yfir landamærin og tímabundin dvalarleyfi, hefur hælisleitendum fækkað mjög. Alls hafa 19.270 sótt um hæli í Svíþjóð í ár, samkvæmt frétt The Local.

Í frétt Sydsvenskan er vísað í upplýsingar frá Útlendingastofnun (Migrationsverket) um að 10.665 hælisleitendur hafi yfirgefið landið á fyrstu átta mánuðum ársins. Bæði er um að ræða þá sem hafa fallið frá hælisumsókn og þá sem hefur verið synjað um hæli.

Þeim, sem samþykkja að yfirgefa landið, er boðið upp á 30 þúsund sænskar krónur í farareyri og er greitt fyrir flugmiða þeirra. Hámarksfjárhæð fyrir fjölskyldu eru 75 þúsund sænskar krónur, sem svarar til rúmlega einnar milljónar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert