Herða löggjöf um staðgöngumæðrun

Indverskar staðgöngumæður.
Indverskar staðgöngumæður. AFP

Stjórnvöld á Indlandi hafa samþykkt frumvarp sem vinnur að því að banna staðgöngumæðrun í vissum tilfellum. Í gegnum tíðina hefur verið afar vinsælt hjá barnlausum pörum að fara til Indlands í leit að ódýrri og löglegri leið til að eignast barn í gegnum staðgöngumæðrun.   

Sushma Swaraj, utanríkisráðherra Indlands, segir ríkisstjórnina hafa samþykkt frumvarp sem heimilar eingöngu giftum hjónum að veita staðgöngumæðrun. Með því er verið að koma í veg fyrir að ungar og fátækar indverskar konur beri börn fyrir aðra.

„Þetta er ítarlegt frumvarp sem á að koma í veg fyrir að staðgöngumæðrun gangi fyrir sig eins og viðskipti,“ sagði Swaraj. Ef frumvarpið verður samþykkt verður erlendum pörum og einhleypum einstaklingum bannað að koma til Indlands til að eignast barn í gegnum staðgöngumæðrun.

„Barnlausum pörum er þó heimilt að fá hjálp frá nákomnum ættingjum sínum í gegnum staðgöngumæðrun,“ segir Swaraj.

Þá hefur einnig færst í aukana að pör neiti að taka við fötluðum börn sem staðgöngumæður eru búnar að ganga með fyrir þau. Um 2.000 pör á ári fá indverskar staðgöngumæður til þess að ganga með fóstur sín. Indland er eitt af fáum löndum í heiminum þar sem enn er hægt að borga konum fyrir staðgöngumæðrun. Í flestum öðrum löndum er það ólöglegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert